Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu í Olís-deild kvenna, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gróttu.
Kári hefur þjálfað hjá Gróttu í 13 ár og hefur náð afbragðsgóðum árangri með meistaraflokk kvenna á undanförnum tveimur árum.
Undir hans stjórn varð Grótta bikarmeistari í febrúar og deildarmeistari í síðasta mánuði. Það eru fyrstu stóru titlarnir í sögu félagsins í meistaraflokkum.
Grótta getur svo bætt sjálfum Íslandsmeistaratitlinum í safnið síðar í vor en úrslitakeppnin hefst á annan í páskum. Grótta mætir Selfossi í átta-liða úrslitunum.
