Handbolti

Hrafnhildur þreytir frumraunina í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir sést hér í leik á móti ÍBV.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir sést hér í leik á móti ÍBV. Vísir/Valli
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, leikja- og markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, verður næsti þjálfari kvennaliðs ÍBV en Morgunblaðið segir frá þessu í morgun.

ÍBV er enn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn undir stjórn Jóns Gunnlaugs Viggóssonar en hann mun hætta með liðið eftir þetta tímabil.

ÍBV mætir Gróttu í undanúrslitum Olís-deildar kvenna en þau hefjast ekki fyrr en 23. apríl því hlé er á keppninni næstu vikuna vegna undankeppni EM hjá 19 ára landsliði kvenna.

Hrafnhildur lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil þar sem hún varð Íslandsmeistari í fjórða sinn með Val. Hún hefur einnig reynslu af því að hafa spilað sem atvinnumaður árum saman í Danmörku og Noregi.

Hrafnhildur hefur þjálfað yngri flokka en þetta verður í fyrsta sinn sem hún reynir fyrir sér í meistaraflokksþjálfun.

Morgunblaðið hefur einnig heimildir fyrir því að töluverðar breytingar verði á leikmannahópi ÍBV-liðsins fyrir næsta tímabil og allt að sjö leikmenn liðsins ætli að róa á önnur mið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×