Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Njarðvík 83-75 | KR með pálmann í höndunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í DHL-höllinni skrifar
vísir/ernir
KR tók af skarið í undanúrslitarimmu liðsins gegn Njarðvík í úrslitakeppni Domino's-deildarinnar með sigri í þriðja leik liðanna í kvöld.

KR hefur 2-1 forystu og getur klárað einvígið í Ljónagryfjunni á miðvikudagskvöldið.

Njarðvík byrjaði betur í kvöld og leiddi um miðjan annan leikhluta með fimmtán stiga mun, 30-15. En KR náði að minnka muninn í fjögur stig áður en fyrri hálfleikur var allur.

Liðin skiptust alls átta sinnum á að vera í forystu í leiknum, langoftast í þriðja leikhluta. Miklu munaði um að KR komst á 13-0 sprett og komst í sex stiga forystu, 69-63, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Það bil náðu Njarðvíkingar ekki að brúa.

Njarðvík spilaði frábæran varnarleik lengst af í fyrri hálfleik og náði að halda miðherjanum Michael Craion algjörlega í skefjum. KR hafði byrjað vel með Darra Hilmarsson fremstan í flokki en eftir að Craion var tekinn úr umferð gekk ekkert upp hjá heimamönnum.

Gestirnir gengu á lagið og virtust einfaldlega ætla að sigla fram úr. En eftir leikhlé KR um miðjan annan leikhluta tók Brynjar Þór Björnsson leikinn í sínar hendur. Hann skoraði næstu fimm stig leiksins og kom svo sóknarleiknum almennilega í gang með því að gangsetja Craion undir körfunni.

Helgi Már Magnússon gaf svo rétta tóninn með þriggja stiga körfu á lokasekúndum fyrri hálfleiksins og gaf þar með heimamönnum ástæðu til að brosa yfir kaffinu í hálfleik.

KR-vélin hélt svo áfram að malla í síðari hálfleik. Craion var drjúgur og það smitaði út frá sér. Aðrir leikmenn skiluðu sínu og þegar skotnýting gestanna datt niður í fjórða leikhluta var eftirleikurinn auðveldur fyrir KR-inga.

Njarðvík var þó í góðum séns alveg fram á lokamínútur leiksins og sýndu gestirnir að þeir eiga fullt erindi í deildarmeistarana. Bonneau var öflugur sem fyrr og Mirko Stefán var á köflum afar öflugur í teignum. Logi skilaði sínu eins og alltaf og sýndi afar lipra tilburði þegar hann tók sig til.

Brynjar Þór var sem fyrr segir afar mikilvægur liði KR þegar mest á reyndi og kom hlutunum almennilega í gang. Aðalmaðurinn í sókn KR er Craion og þegar honum gengur vel þá ganga aðrir hlutir vel hjá KR. Hann skilaði 24 stigum í kvöld og þeir Brynjar Þór og Darri sextán hvor. Helgi Már var skammt undan með fimmtán stig.

Það má búast við áframhaldandi spennu í rimmunni þegar liðin mætast í Ljónagryfjunni á miðvikudag. Sjálfsagt mun mikið velta á því hvort að Pavel Ermolinskij verði kominn almennilega af stað þá en hann fékk mikilvægar mínútur í kvöld. Ef hann kemst aftur af stað og verður sá lykilmaður sem hann var framan af tímabili fyrir KR verður verkefnið enn erfiðara fyrir þá grænklæddu.

vísir/stefán
Logi: Við spiluðum mjög vel

Logi Gunnarsson skoraði nítján stig fyrir Njarðvík í kvöld en það dró af honum eins og öðrum í hans liði í fjórða leikhluta, er KR-ingar náðu að síga fram úr og tryggja sér sigur.

„Þetta voru tvö frábær lið í hörkuleik. Við vissum að þeir kæmu brjálaðir til baka á heimavelli og KR-ingar spiluðu vel í kvöld,“ sagði Logi eftir tapið.

„Þeir voru heppnir voru með nokkra bolta og leituðu mikið inn á Craion sem náði að setja niður bolta sem voru að klikka hjá honum í fyrri hálfleik. Við náðum svo bara ekki að halda dampi í okkar stigaskorun undir lokin og því fór sem fór.“

„Stundum er það bara svoleiðis í körfubolta. Maður er ekki alltaf upp á sitt besta frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. En við vorum vel inni í þessum leik og teljum okkur eiga jafn mikla möguleika og þeir. Það er bara áfram gakk í næsta leik.“

Logi segir að hans menn þurfi einfaldlega að halda uppteknum hætti í næsta leik. „Ég er mjög ánægður með hvernig við spiluðum í kvöld. Við áttum góðan séns á að vinna en gerðum mistök undir lokin sem við áttum ekki að gera. En hugarfarið er gott og við höfðum gaman að því að spila hér í kvöld. Við ætlum að jafna þetta í næsta leik.“

vísir/valli
Darri: Búinn á því

Darri Hilmarsson átti góðan leik fyrir KR í kvöld er hans menn komust í 2-1 forystu í undanúrslitarimmunni gegn Njarðvík.

„Það var mikil ákefð í þessum leik og maður er alveg búinn á því. Leikurinn var mjög sveiflukenndur,“ sagði Darri.

„Fyrri hálfleikur var lélegur hjá okkur. Ég reyndi að kveikja neista í byrjun leiksins og það gekk í smástund en svo slökknaði á honum.“

Pavel Ermolinskij spilaði í tæpar nítján mínútur í kvöld en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla. Hann skoraði þrjú stig en Darri segir að það hafi verið mikilvægt að fá hann aftur inn.

„Maður vissi að hann væri væntanlegur um þetta leyti í úrslitakeppninni. Hann skilaði fínum mínútum og það var gott að fá hann aftur inn.“

Darri fær það verkefni að taka á Stefan Bonneau, leikmanni Njarðvíkur, sem hefur heillað marga með frammistöðu sinni. Darri segir erfitt að eiga við hann.

„Hann er með þeim sneggri sem maður hefur mætt. Það er mikil sprengja í honum og svo setur hann niður einhverja rugl þrista tvo metra fyrir utan línuna. Það er mjög erfitt að lesa hann. En þetta er verðug áskorun og gaman að eiga við hann.“

Darri segir KR-inga vitanlega stefna að því að klára einvígið í Ljónagryfjunni á miðvikudag. „Auðvitað. Maður vill helst sleppa við oddaleikinn enda getur allt gerst í honum.“

vísir/ernir
Finnur Freyr: Menn þurfa að stíga upp og þora

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, segir að það sé erfitt að standa á hliðarlínunni í jafn jöfnum og spennandi leik og viðureign liðsins gegn Njarðvík var í kvöld. KR-ingar höfðu þó að lokum betur.

„Þetta eru leikirnir sem okkur þjálfurunum finnst hvað erfiðastir. En þetta var örugglega mikil skemmtun fyrir áhorfendur,“ sagði Finnur og hann hrósaði liði Njarðvíkur.

„Þeir komu dýrvitlausir hingað inn og varnarleikur þeirra í fyrri hálfleik var frábær. Við vorum að sama skapi passívir en náðum að koma til baka í þriðja leikhluta og náðum að halda það út þrátt fyrir að hafa misst aðeins dampinn aftur.“

KR skoraði aðeins fimmtán stig á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Finnur tók leikhlé í stöðunni 15-30 en KR-ingar hófu endurkomu sína þá.

„Ég man nú ekki hvað ég sagði. Það var örugglega ekkert merkilegt. Mér fannst að allir væru bara að bíða eftir því að næsti maður gerði eitthvað. En í svona stöðu þurfa menn bara að stíga upp og þora. Það var það sem gerðist og þá fór þetta að rúlla.“

„Pavel hefur verið í gegnum tíðina sá maður sem fer af stað og býr eitthvað til en hinir verða að þora á meðan hann er frá. Vera fastari fyrir og sækja hlutina.“

Finnur vonast til að Pavel komi meira við sögu eftir því sem líður á úrslitakeppnina.

„Það er ekki hægt að spara hann mikið lengur. Við ætlum okkur að vinna leiki og eins og staðan er núna þurfum við einn sigur til viðbótar í þessari seríu. Það er svo vonandi ein rimma eftir og þá þýðir ekki að hafa hann ískaldan.“

„Við verðum að sjá hvernig hann kemur út úr þessum leik en ætlunin er að klára þessu rimmu á miðvikudag, sama hvernig við gerum það.“

KR-Njarðvík 83-75 (15-23, 18-14, 23-20, 27-18)

KR: Michael Craion 24/6 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 16/6 fráköst/7 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 16/8 fráköst, Helgi Már Magnússon 15/5 fráköst/3 varin skot, Björn Kristjánsson 5/12 fráköst, Finnur Atli Magnússon 4, Pavel Ermolinskij 3/8 fráköst.

Njarðvík: Stefan Bonneau 27/11 fráköst/6 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 19/4 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 16/8 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 8/5 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Ágúst Orrason 1, Maciej Stanislav Baginski 0/7 fráköst.

Leiklýsing: KR - Njarðvík


Leik lokið | 83-75: KR-ingar tryggja sér 2-1 forystu í rimmunni með ansi mikilvægum sigri hér á heimavelli.

40. mín | 81-73: Brynjar á línuna, setur aftur bara annað niður. Bonneau keyrir inn, gengur ekki. Heil eilífð líður þangað til að Njarðvíkingar ná að brjóta á Helga. Hann setur bæði niður og 20 sekúndur eftir. Sigur KR er staðreynd.

40. mín | 78-73: Brynjar Þór á línuna, setur annað niður. Craion er inn á. Brotið svo á Bonneau í þriggja stiga skoti, Craion gerir það og fær sína fjórðu villu. Bonneau setur öll þrjú niður. 44 sekúndur eftir.

40. mín | 77-70: Craion virðist hafa misstigið sig og fer af velli. Virðist að minnsta kosti hlotið einhver meiðsli á ökkla. 59 sekúndur eftir og leikhlé tekið.

39. mín | 77-70: Brynjar Þór reynir við þrist, gengur ekki. Bonneau sækir að körfunni, lendir á Brynjari en ekkert dæmt. KR-ingar skynsamir og láta tímann líða. Brynjar í stökkskot, gengur. 1:15 eftir.

38. mín | 75-70: Bonneau með mikilvæga körfu og KR tekur leikhlé. Þeir eru með pálmann í höndunum en þurfa standa rétt að hlutunum. 2:07 eftir.

38. mín | 75-68: Tíminn vinnur með KR. Logi klikkar í tveimur sóknum í röð, í síðara skiptið úr opnu þriggja stiga færi. Þetta er of dýrt. 2:15 eftir.

37. mín | 75-68: Craion kemst inn í sendingu hjá Bonneau og Helgi skorar. Craion stelur svo boltanum af Craion og Darri skorar. Þetta eru risastór stig. Mirko heldur lífi í þessu fyrir gestina með þristi.

35. mín | 67-63: Friðik og Teitur eru æfir á hliðarlínunni. Það er hiti í mönnum, eins og vera ber. Njarðvíkingar eru hins vegar ekki að nýta skotin sín nógu vel þessa stundina og það er sama hvað menn æsa sig, menn verða að setja einhver stig á töfluna. Craion heldur áfram.

33. mín | 61-63: Enn og aftur fer þetta í gang hjá KR með því að láta Craion sækja stig undir körfunni. Endist það í þetta skiptið? Fimm stig í röð hjá honum.

32. mín | 56-63: Logi með skemmtilegan þrist. Hangir rétt svo fyrir utan þriggja og er því eins og hann sé að detta inn í skotið. Bara net. KR tekur leikhlé.

31. mín | 56-60: Bonneau skorar fyrstu stig fjórða leikhluta og fær villu á Craion þar að auki. Þriðja villa Craion en Brynjar og Darri eru líka með þrjár. Mirko þrjár hjá Njarðvík. Bonneau setur niður vítið líka.

Stigin: KR: Craion 15, Brynjar Þór 12, Darri 10, Helgi Már 9, Finnur Atli 4, Pavel 3, Björn 3. Njarðvík: Bonneau 17, Logi 16, Mirko 11, Ólafur Helgi 8, Hjörtur Hrafn 4, Ágúst 1.

Þriðja leikhluta lokið | 56-57: Helgi Már með ókeypis þrist eftir að Brynjar komst inn í sendingu Bonneau. Svona stig geta skipt sköpum. Bonneau kvittar þó fyrir þetta með öðrum þristi. Hinn ungi Þórir Guðmundur fer svo á vítalínuna en klikkar á báðum í blálok þriðja leikhluta.

28. mín | 50-53: Tvöfaldað, jafnvel þrefaldað á Bonneau sem finnur samt samherja. Logi fær boltann út í horni og setur niður svakalegan þrist.

26. mín | 48-48: Bonneau fær villu á Pavel en KR-ingar vildu fá dæmdan ruðning. Leifur fær pillur úr stúkunni og hann er minntur á reglurnar. Hann brosti út í annað, sýndist mér. Leifur kann reglurnar.

26. mín | 48-47: Ja, hérna. Darri stelur boltanum af Bonneau og fer fram, skorar og sækir víti að auki. Logi svarar en Craion setur niður körfu. Þá er komið að Hirti, hann er galopinn og neglir niður þristi. Þvílíkur leikur.

24. mín | 41-42: Björn með rándýran þrist og hann hittir á hárréttum tíma. Hans fyrstu stig í leiknum og hann kemur KR yfir. Skammgóður vermir þó, því Logi svarar með þristi.

23. mín | 38-39: Brynjar tekur aftur sóknarfrakást, nú eftir víti Craion og nú hittir hann. KR tvöfalda á Bonneau og það er að virka. KR vinnur boltann og Brynjar minnkar muninn í eitt.

21. mín | 33-39: Brynjar inn í teig, klikkar. Tekur frákast, klikkar aftur. Mirko kemur Njarðvík á blað hinum megin.

Hálfleikur: KR var komið í mjög vond mál um annan leikhluta en þá tók Finnur Freyr leikhlé og rétt eins og í þriðja leikhluta á fimmtudag fóru KR-ingar aftur að leita undir körfuna og saxa á forystuna með því að láta til sín taka þar. Þeir þurfa að nýta krafta sína þar, fyrst og fremst. Njarðvíkingar duttu aðeins úr taktinum við það en varnarleikur þeirra var frábær á köflum. Ef vörnin heldur dampi eru þeim allir vegir færir.

Tölfræði fyrri hálfleiks: KR - Njarðvík 33-37.

KR: Craion 10/4/3, Brynjar Þór 8/2/3, Helgi Már 5/2/0, Darri, 5/4/1, Pavel 3/5/1, Finnur Atli 2/0/0, Magni 0/2/0, Björn 0/5/0.

Njarðvík: Bonneau 13/5/4, Mirko 9/5/2, Logi 8/3/2, Ólafur Helgi 6/3/0, Hjörtur Hrafn 1/0/0, Magic 0/5/0, Ágúst 0/1/0.

Skotnýting: 2ja: 10/29 - 9/21. 3ja: 2/7 - 4/15. Víti: 7/10 - 7/10.

Fráköst: 24 (18/6) - 22 (17/5).

Villur: 11 - 9.

Tapaðir boltar: 7 - 8.

Fyrri hálfleik lokið | 33-37: Fyrst fær Hjörtur boltann eftir innkast, Pavel blokkar hann með tilþrifum. Fær svo aftur boltann eftir innkast, nú er það Helgi en hann fær villu á sig. Hjörtur setur eitt víti niður. En þá svarar Helgi bara með þristi beint í andlitið á gestunum. Fjögurra stiga leikur. KR-ingar hafa bjargað sér fyrir horn með góðum endaspretti í fyrri hálfleik.

20. mín | 30-36: Brynjar með körfu og víti þar að auki og minnkar munn í sex. Þórir Guðmundur, hinn sextán ára, reynir þrist en gengur ekki. Njarðvík hefur gefið eftir í sóknarleiknum. 26 sekúndur eftir þegar leikhlé er tekið.

18. mín | 24-35: Craion vaknar til lífsins með troðslu. Hann var nýbúinn að klikka á opnu sniðskoti. Hann þurfti þetta. Darri nýbúinn að fá sína þriðju villu og fer út af.

17. mín | 22-32: Jæja, Pavel með körfu og víti að auki. Hittir ekki úr því reyndar. Brynjar Þór svo í næstu sókn en svo klikkar Craion. Hann verður að komast í gang ætli KR-ingar sér að gera eitthvað. Brynjar Þór svo með þrist, gengur! Loksins eitthvað hjá KR. Leikhlé, Njarðvík.

Leikhlé: KR er með 6/22 nýtingu í 2ja og 0/4 í 3ja. Vá.

16. mín | 15-30: Það er einhver furðuleg stemning yfir liði KR. Það gengur nákvæmlega ekki neitt gegn varnarleik Njarðvíkur. Craion nýtist ekki og menn hitta ekkert að utan. Að sama skapi lítur Logi út eins og átján ára skratti og keyrir inn í teig og setur niður tvö layup. KR er með núll stig í öðrum leikhluta! Leikhlé, Finnur Freyr.

14. mín | 15-26: Björn var að grýta boltanum út af. KR hefur skorað fjögur stig síðustu 7-8 mínútur leiksins. Og Ólafur Helgi refsar þeim með öðrum þristi.

12. mín | 15-23: Fyrstu 5-6 skot leikhlutans hafa öll klikkað. Nokkrir tapaðir boltar líka og mikil barátta um lausan bolta. Magic og Helgi í stimpingum, ekkert stórmál. En Bonneau er kældur í smástund á bekknum.

Stig fyrsta leikhluta: KR: Craion 6, Darri 5, Helgi Már 2, Finnur Atli 2. Njarðvík: Mirko 8, Bonneau 8, Logi 4, Ólafur Helgi 3.

Fyrsta leikluta lokið | 15-23: Craion á línuna, villa á Mirko. Setur bæði niður. Bonneau ber upp boltann og er með Brynjar í sér. Hjörtur setur screen á hann og Brynjar skellur á honum með tilþrifum. Ekkert dæmt og Brynjar liggur í gólfinu á meðan Bonneau setur niður körfu. Brynjar og Hjörtur fara báðir út af en Hjörtur er með skurð á hökunni, að því er virðist. Næsta sókn, Njarðvík með boltann. Bonneau setur upp þriggja stiga skot fyrir Ólaf Helga sem klárar leikhlutann á flautuþristi. Þetta er almennilegt!

10. mín | 11-18: Logi stelur boltanum af Helga, fiskar svo villu á Pavel. Fer á vítalínuna og setur bæði niður.

9. mín | 11-16: Bæði lið eru að byggja sér kofa með öllum þessum múrsteinum. KR hefur ekki skorað í nokkrar mínútur en Mirko var að setja niður körfu eftir sóknarfrákast. Því var vel fagnað og KR tók leikhlé. Kominn pirringur í menn.

7. mín | 11-12: Sóknarleikur KR hefur hikstað síðustu mínúturnar. Þá kemur Pavel Ermolinskij inn. KR-ingar eru svo að safna villum í varnarleiknum sínum. Bonneau upp í þrist, gengur ekki.

6. mín | 11-12: Næsta sókn, það sama gerist. Bonneau setur niður þrist með mann í sér. Þessi maður.

5. mín | 11-9: Darri er allt í öllu hjá KR. Tekur fráköst, gefur stoðsendingar og tekur skot. En Bonneau minnir á sig með góðum þristi.

3. mín | 9-4: Skipting strax eftir rúmar tvær mínútur. Finnur Atli inn fyrir Björn. darri heldur svo áfram að setja niður skot. Hann er kominn með fimm stig. Mirko svarar.

2. mín | 5-0: Darri á vítalínunni í fyrstu sókn leiksins og hann nýtir annað þeirra. Njarðvík klikkar svo og KR-ingar bruna fram. Darri nær þá sóknarfrákasti og setur niður skot. Svo klikkar Bonneau og þá er komið að Craion. Góð byrjun heimamanna.

1. mín | 0-0: Þá er þessi veisla hafin!

Fyrir leik: Sé ekki betur en að Pavel byrji á bekknum. Björn Kristjánsson fær klöpp á öxlina frá Pavel - hann byrjar í dag. Spilar hann eitthvað í dag. Er verið að hræða Njarðvíkingana, eða reyna það?

Fyrir leik: Öllum formlegheitum lokið og lokaupphitun leikmanna hafin. Bubbi á fóninum, auðvitað KR-lagið. Leifur, Jón Guðmundsson og Jón Bender eru dómarar leiksins og þeir eru líka klárir í slaginn.

Fyrir leik: Íslandsmeistararnir, það er að segja þeir sem urðu meistarar fyrir hálfri öld síðan, standa við hliðarlínuna og gefa núverandi leikmönnum fimmu þegar hlaupa inn á völlinn í sinni leikmannakynningu. Það er mögnuð stemning hér í húsinu.

Fyrir leik: Íslandsmeistaralið KR frá 1965 er hér kynnt til sögunnar, með tilheyrandi leikmannakynningu. Þetta er mikil upptalning og hér standa allir og klappa svo mínútum skiptir, bæði áhorfendur og leikmenn. Afar skemmtilegt að sjá og mikil virðing borin fyrir þessum mönnum.

Fyrir leik: KR var 2/12 í 3ja stiga skotum í fyrri hálfleik á fimmtudag. Svo 7/15 í seinni hálfleik þar sem KR-ingar tóku undirtökin og voru hársbreidd frá sigri. Þá skipti máli að Craion var mun öflugri í teignum sem gaf bakvarðasveitinni meira svigrúm.

Fyrir leik: Ég hef fengið rangar upplýsingar fyrir leik því Pavel Ermolinskij er vissulega á skýrslu KR-inga. Frábærar fréttir fyrir KR-inga en við skulum sjá til hversu mikið hann fær að spila.

Fyrir leik: Róleg og fremur lágstemmd tónlist í húsinu, miðað við það sem maður heyrir oft. Það er bara fínt, stemningin verður örugglega svo keyrð upp þegar nær dregur upphafsflautinu.

Fyrir leik: Meðlimir í fyrsta sigurliði KR á Íslandsmótinu í körfubolta fá heiðurssæti á leiknum en rétt í þessu var Leifur S. Garðarsson, einn dómara leiksins, að heilsa upp á þá vösku sveit manna - Einar Bollason og fleiri góða menn.

Fyrir leik: Hingað voru menn mættir snemma til að tryggja sér sæti sem er ávallt ánægjulegt að sjá á íslenskum íþróttaviðburðum. Vonandi fá allir að sjá leikinn sem vilja en það er alltaf skemmtilegra að hafa húsið fullt af fólki sem hefur það mikinn áhuga á leiknum að það mætti snemma.

Fyrir leik: Michael Craion gerði afdrifarík mistök í lok leiksins í Njarðvík. Á lokamínútunni klikkaði hann á sniðskoti undir körfunni, eins og reyndar Logi Gunnarsson hafði gert rétt áður, og svo náði hann ekki að grípa boltann undir körfunni eftir innkast á lokasekúndunni. Það var kannski heilmikið sem hann þurfti að gera en hann hefði að minnsta kosti átt að grípa boltann.

Fyrir leik: Pavel Ermolinskij hitar upp eins og fyrir síðasta leik en er ekki á skýrslu í dag, rétt eins og áður. Hann er enn að glíma við meiðslin eftir bikarúrslitaleikinn og verða KR-ingar að halda áfram án hans.

Fyrir leik: Staðan í rimmunni er 1-1 eftir þennan magnaða þrist hjá Stefan Bonneau í lok annars leiks liðanna í Ljónagryfjunni á fimmtudagskvöld. KR var á góðri leið með að koma sér í 2-0 forystu og á leið aftur í DHL-höllina en þökk sé Bonneau er núna allt önnur staða upp á teningnum.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik KR og Njarðvíkur lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×