Körfubolti

Helgi Már tæklaður í viðtali: Við bognum ekki

Tómas Þór Þórðarson í Síkinu skrifar
Helgi Már og Pavel fagna í kvöld.
Helgi Már og Pavel fagna í kvöld. vísir/auðunn
"Þetta er æðislegt. Sérstaklega eftir svona leik," sagði sigurreifur Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, við Vísi haldandi á Íslandsbikarnum eftir sigurinn á Tindastóli í kvöld.

Með honum tryggði KR sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og þann 14. í sögu félagsins.

"Það er skemmtilegast að vinna þetta á heimavelli en hér voru svo miklar tilfinningasveiflur í þessu. Þeir voru komnir tíu stigum yfir og blússandi stemning. Lewis að skora næstum 40 stig en einhvern veginn náðum við að klára þetta. Þetta var æðislegt.

KR-liðið sýndi gæði sín í kvöld þegar það lenti undir í seinni hálfleik. Það lét pressuna ekki ná til sín heldur vann sig aftur inn í leikinn og fagnaði sigri.

"Við bognum ekki og gefum okkur séns á að vinna sama hvað gerist," sagði Helgi Már áður en hann var bókstaflega tæklaður í gólfið af einum stuðningsmanni KR sem vildi ólmur faðma hann.

Helgi stóð á fætur og hélt áfram: "Við höfum lent í mörgum svona leikjum. Allir leikirnir gegn Stólunum hafa verið hörkuleikir en við kláruðum þetta.

Aðspurður hvort KR ætlaði ekki að vinna bara aftur á næsta ári sagði Helgi: "Það er stefnan. Alveg klárt mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×