Körfubolti

Dempsey gat horft á leikinn | Rúða splundraðist í rútunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Maríasson með þjálfaranum Israel Martin til vinstri. Myron Dempsey í leik með Tindastóli til hægri.
Kári Maríasson með þjálfaranum Israel Martin til vinstri. Myron Dempsey í leik með Tindastóli til hægri. Vísir/Auðunn/Stefán
Myron Dempsey spilaði ekki með Tindastóli gegn KR í fyrsta leik liðanna í lokaúrslitum Domino's-deildar karla í gær. Hann fékk högg á augað á æfingu og treysti sér ekki til að spila leikinn.

„Hann fékk lyklana að bílnum og ætlaði að vera þar til að vera í myrkrinu. En hann kom svo aftur inn í hús og horfði á leikinn,“ sagði Kári Maríasson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, við Vísi í dag.

Hann segir enn óvíst um þátttöku hans í leik liðanna á fimmtudag en Dempsey fór til læknis í morgun. Kári vonast til að endurheimta bæði hann og Darrell Flake fyrir þriðja leik liðanna í rimmunni en hann fer fram á sunnudag.

„En auðvitað vonumst við að fá Dempsey inn strax á fimmtudaginn. Við vorum arfaslakir í frákastabaráttunni án hans og þurfum á honum að halda. Það verður að koma í ljós hvort hann nái leiknum.“

Flake var úr leik í tvo mánuði í vetur eftir að hann brákaði bein í fæti í nóvember. Kári segir að Flake hafi jafnvel talið að um samskonar meiðsli væri að ræða en að hann ætti eftir að fara í frekari rannsóknir.

Það gekk svo á ýmsu í rútuferðinni heim á Sauðárkrók en ein rúða brotnaði á leiðinni. „Það var hvasst og það myndaðist svo mikill þrýstingur þegar við mættum flutningabíl að ein rúðan splundraðist,“ segir Kári sem segir að hans menn kippi sér ekki upp við þetta.

„Við höfum farið í um 30 ferðir í vetur og um 3-4 hafa verið í lagi. Við höfum þurft að glíma við seinkanir, lélega færð, ómögulegt skyggni og tekið á okkur ýmsar krókaleiðir til að komast á leiðarenda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×