Körfubolti

Stuðningsmenn KR og Tindastóls ganga ekki inn um sömu dyr í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Stólanna mæta örugglega vel í kvöld.
Stuðningsmenn Stólanna mæta örugglega vel í kvöld. Vísir/Stefán
KR og Tindastóll mætast í kvöld í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfubolta en fyrsti leikurinn fer fram á heimavelli KR-inga í DHL-höllinni.

KR-ingar búast við fullu húsi og hafa gert ráðstafanir til að auðvelda aðgengi áhorfendanna inn í salinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á síðu KR körfu á fésbókinni.

KR-ingar fóru þá leið að vera með tvo innganga inn í salinn en vanalega fara allir áhorfendur í gegnum sömu hurðina. Stuðningsmenn KR og Tindastóls ganga því ekki inn um sömu dyr í kvöld.

Gestirnir komast inn í salinn í gegnum gömlu hurðina þar sem þeir fá tvær stúkur fyrir sig en stuðningsmenn KR-inga fara aftur á móti inn í gegnum ganginn á bakvið aðalstúkuna. Allt er þetta gert til að auðvelda áhorfendum að komast inn í salinn enda má búast við um tvö þúsund manns á leikinn í kvöld.

Allir áhorfendur geta hinsvegar keypt sér hamborgara fyrir leikinn eins og vanalega en miðasalan og hamborgarasalan opna bæði klukkan 17.00. Það er síðan byrjað að hleypa inn í salinn klukkan 18.00.

Leikur KR og Tindastóls hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig skipulagið verður hjá KR-ingum í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×