Handbolti

Róbert og félagar unnu toppslaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson.
Róbert Gunnarsson. Vísir/Getty
Paris Saint-Germain vann fjögurra marka sigur á Montpellier AHB, 32-28, í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Paris Saint-Germain minnkaði forskot Montpellier þar með í eitt stig þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni en lið Montpellier var búið að vinna níu deildarleiki í röð fyrir leikinn.

Íslenski landsliðslínumaðurinn Róbert Gunnarsson komst ekki á blað í leiknum en markahæstir voru Mikkel Hansen (6 mörk), Luc Abalo (5 mörk) og Daniel Narcisse (5 mörk). Narcisse fór á kostum á lokakafla leiksins.

Paris Saint-Germain hefur unnið báða leiki sína á móti Montpellier í deildinni í vetur en töpuðu stig á móti öðrum liðum eru að reynast Parísar-liðinu dýrkeypt í baráttunni um franska meistaratitilinn.

Montpellier hefur aðeins tapað tveimur leikjum í deildinni á tímabilinu og það eru einmitt leikirnir við Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×