Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Svartfjallaland 84-102 | Strákarnir fengu líka silfur

Tómas Þór Þórðarson í Laugardalshöll skrifar
Íslensku strákarnir með silfrið í Höllinni í dag.
Íslensku strákarnir með silfrið í Höllinni í dag. vísir/andri marinó
Ísland tapaði úrslitaleiknum gegn Svartfjallalandi í körfuboltakeppni karla á Smáþjóðaleikunum í Laugardalshöll í dag, 102-84, og varð að sætta sig við silfrið í enn eitt skiptið.

Það verður einfaldlega að segja að Svartfellingarnir voru miklu sterkari eins og tölurnar gefa til kynna, en íslenska liðið átti í miklum vandræðum með vel mannað lið gestanna.

Svartfjallaland spilaði firnasterka vörn og græddi á henni mikið af auðveldum stigum. Íslensku strákarnir töpuðu boltanum í fyrstu þremur sóknum sínum á meðan gestirnir skoruðu níu stig í röð.

Svartfellingarnir eru stórir og sterkir og áttu auðvelt með að skora undir körfunni til að byrja með. En þeir hættu því fljótlega og fóru bara að skjóta fyrir utan.

Hittni svartfellsku leikmannanna fyrir utan var engu lagi lík í fyrri hálfleik. Eiginlega bara algjört rugl. "Ég hef ekki séð svona áður. Ekki síðan ég var í þessu," sagði Einar Bollason léttur í bragði en samt furðu lostinn við blaðamenn í hálfleik.

Svartfellingar hittu úr tólf af 22 skotum sínum fyrir utan og voru með 55 prósent nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Það var sama hvað þeir reyndu, nánast allt fór ofan í. Þá voru þeir með 83 prósent nýtingu úr teignum.

Íslensku strákarnir fóru erfiðlega af stað en unnu sig inn í leikinn og minnkuðu muninn niður í tíu stig, 47-37, þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik.

Svartfellingar gáfu þá í og voru með 20 stiga forskot í hálfleik. Þar munaði um þrjá þrista sem liðið setti á lokakaflanum.

Ragnar Nathanaelsson rís hæst í teig Svartfellinga í kvöld.vísir/andri marinó
Logi Gunnarsson byrjaði vel fyrir Ísland og skoraði tólf stig í fyrri hálfleik, þar af þrjá þrista úr fjórum tilranum. Íslenska liðið hitti úr sex af 13 fyrir utan í fyrri hálfleik sem er mjög nýting en ekkert á miðað við Svartfellingana.

Eftir skrekk í byrjun var sóknarleikur íslenska liðsins betri og fóru þeir að finna Hlyn undir körfunni með flottu spili, en fyrirliðinn skoraði tólf stig í fyrri hálfleik. Munurinn þó 20 stig þegar liðin gengu til búningsklefa, 61-41.

Ísland vann þriðja leikhlutann með þremur stigum og hélt Svartfjallalandi í 15 stigum. Mikið munaði um að gestirnir hættu að hitta eins og óðir menn fyrir utan og settu aðeins niður einn þrist af sex í þriðja leikhluta.

Síðasti fjórðungurinn var svo bara spurning um hversu stór sigurinn yrði, en mínúturnar mikilvægar fyrir Craig Pedersen og aðstoðarmenn hans til að sjá liðið spila keppnisleiki í aðdraganda stóru stundarinnar.

Okkar menn hættu þó ekkert og létu valta yfir sig á endasprettinum, þvert á móti. Martin Hermannsson, sem spilaði vel í leiknum og skoraði 11 stig, setti niður þrist og í kjölfarið gerði Jakob slíkt hið saman efti að Kristófer varði skot með tilþrifum.

Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson var stigahæstur í kvöld með 19 stig.vísir/andri marinó
Þeir minnkuðu muninn niður í þrettán stig og fór þá aðeins um Svartfellingana. Elvar Már Friðriksson kom inn á í fjórða leikhlutanum og setti einnig niður þriggja stiga skot, en íslenska liðið fékk framlag úr öllum áttum.

Bilið var þó of stórt þar sem Svartfjallaland náði með 23 stiga forystu, 87-64, en endaspretturinn flottur hjá okkar strákum. Lokatölur, 102-84, og mikilvægar mínútur komnar í erfiðum keppnisleik í aðdraganda stóru stundarinnar.

Strákarnir eru auðvitað að fara á Evrópumótið í Berlín seinna í sumar og var leikurinn því góð æfing fyrir það, en í Berlín mun íslenska liðið mæta liðum sem eru mun betri en Svartfjallaland.

Það hefði verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði spilað ef Jón Arnór, Haukur Helgi, Hörður Axel og Pavel væru með, en að sama skapi fengu leikmenn sem reyna að spila sig inn í EM-hópinn gott tækifæri til að sanna sig.

Hlynur Bæringsson var stigahæstur í kvöld með 19 stig og fimm fráköst, en Jakob Örn Sigurðarson skoraði 17 stig og tók sjö fráköst. Logi Gunnarsson spilaði einnig vel og skoraði 14 stig. Þá var Kristófer Acox nokkuð öflugur í varnarleiknum og tók níu fráköst og varði þrjú skot.

Silfrið staðreynd hjá okkar strákum en besta liðið, Svartfjallaland, sannfærandi sigurvegarar á 16. Smáþjóðaleikunum.

Ísland - Svartfjallaland 84-102 (18-28, 23-33, 18-15, 25-26)

Ísland: Hlynur Elías Bæringsson 19/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 17/7 fráköst, Logi Gunnarsson 14, Martin Hermannsson 11/5 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 6, Ægir Þór Steinarsson 6/6 stoðsendingar, Kristófer Acox 4/9 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 3, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 2/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 2.

Svartfjallaland: Milutin Dukanovic 15, Suad Sehovic 15/4 fráköst, Vladimir Dasic 13/5 fráköst, Blagota Sekulic 11, Nemanja Milosevic 10, Nikola Pavlicevic 10/6 stoðsendingar, Radosav Spasojevic 9, Nemanja Vranjes 9/5 fráköst/5 stoðsendingar, Aleksa Popovic 8, Petar Popovic 2.

Craig Pedersen ræðir við strákana í leikhléi í leiknum í kvöld.vísir/andri marinó
Craig: Lærðum hvernig við nálgumst leikina á EM.

"Eftir hæga byrjun gerðum við fullt af góðum hlutum. Við skorum 84 stig á móti góðu, stóru og sterku liði," sagði Craig Pedersen, þjálfari Íslands, við Vísi eftir leik.

"Við fengum mikið af góðum skotum sem er eitthvað sem við verðum að gera á EM."

Leikurinn í dag var fínt próf fyrir EM þar sem Ísland mætir nokkrum af allra sterkustu körfuboltaþjóðum heims.

"Þetta er lið sem við þurfum að spila gegn því öll liðin á EM verða svona góð og svona líkamlega sterk. Vonandi verða liðin á EM ekki með svona hitti samt," sagði Craig og brosti.

"Við áttum í vandræðum með ákveðna hluti sem við vissum að gætu orðið vandamál gegn svona liði. Þess vegna er svo mikilvægt að fá svona leik."

"Við neyddumst til að tvöfalda á mennina undir körfunni og þeir fundu lausnir á því allan leikinn."

Í lið Íslands vantaði leikmenn á borð við Jón Arnór Stefánsson, Hauk Helga Pálsson og Hörð Axel Vilhjálmsson. Því fengu þjálfararnir að sjá leikmenn sem berjast við að komast með til Berlínar í september.

"Strákarnir sem komu inn stóðu sig vel. Sjáðu bara Elvar sem situr á bekkinn allan leikinn en kemur svo inn undir lokin og setur niður nokkur skot," sagði Craig.

"Við héldum alltaf áfram að berjast og ég vonast til að það skili okkur einhverju í framhaldinu. Það var mikið af góðum hlutum sem ég sá í dag," sagði Craig, en hvernig dregur hann saman mótið upp á framhaldið?

"Að fá góð skot er það allra mikilvægasta. Við treystum á skotin fyrir utan því við getum ekki treyst á að henda boltanum undir körfuna og vonast eftir stigum þar. Í dag lærðum við hvernig við þurfum að nálgast leikina á EM," sagði Craig Pedersen.

Logi Gunnarsson einbeittur á svip í leiknum.vísir/andri marinó
Logi: Svona verður þetta á EM

"Við græddum mikið á að spila við þá í dag," sagði Logi Gunnarsson, skotbakvörður Íslands, nokkuð brattur við Vísi þrátt fyrir 18 stiga tap.

"Þetta er mjög gott lið og lið sem er fastagestur á öllum stórmótum. Þeir eru í þeim klassa og vel það."

Á Smáþjóðaleikunum fengu spilarar sem eru að reyna að komast í hópinn fyrir EM mikilvægar mínútur þar sem nokkra lykilmenn vantaði.

"Það var mjög mikilvægt fyrir þjálfarana að geta séð fleiri leikmenn og líka gaman fyrir þá sem hafa fengið minna að spila að taka þátt og spila á móti frábæru körfuboltaliði," sagði Logi sem var nokkuð sáttur með leikinn.

"Við vorum góðir á tímapunktum í þessum leik og mér finnst þetta vera besti leikurinn okkar þó hann tapist stórt."

"Að skora 84 á svona gott lið er mjög fínt, en auðvitað áttum við að gera betur í varnarfærslunum. Þeir voru að fá mikið af opnum skotum og hittu gríðarlega vel allan leikinn."

"Við verðum að vera fljótari út í þá og í róteringunum. Við lærðum mikið að spila við þennan leik og mér fannst við góðir á löngum köflum."

Hann segir að þetta sé nákvæmlega það sem liðið megi búast við á EM í Berlín.

"Svona verður þetta á EM. Við höfum núna góðan tíma til að vinna í okkar leik og spila á móti fleiri svona þjóðum fram að móti. Þegar við fáum svo fleiri leikmenn inn verðum við í góðum málum," sagði Logi Gunnarsson.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 17 stig og tók 7 fráköst.vísir/andri marinó
[Bein lýsing]

40. mín (84-102) LEIK LOKIÐ. Silfur hjá strákunum enn og aftur.

39. mín (81-95) Elvar Már bætir við þristi og nær að minnka muninn mest í 13 stig. Flottur lokakafli hjá okkar strákum.

36. mín (74-91) Jakob bætir við þriggja stiga körfu með flottu skoti með mann í andltinu og Kristófer ver svo skot hinum megin. Smá tilþrif hérna til að gleðja landann. Þetta var almennilegt.

35. mín (71-91) Þriggja stiga karfa frá Martin Hermannssyni kemur þessu aftur í 20 stigin. Martin með 11 stig í kvöld og spilað vel.

33. mín (64-87) Það er ekki mikið í þessu núna. Bæði lið vita hvernig þetta endar og hvort þeirra fær gullið. En þó góðar mínútur sem menn verða að nýta í undirbúningi fyrir EM.

32. mín (61-83) Svartfellingar byrja betur og koma muninum aftur yfir 20 stigin.

30. mín (59-76) Þriðja leikhluta lokið. Ísland vinnur þriðja leikhlutann með þremur stigum en betur má ef duga skal. Hlynur er orðinn stigahæstur með 16 stig.

28. mín (57-74) Brynjar Þór Björnsson kemur inn á og setur niður þriggja stiga körfu. Það kveikir í fólkinu á pöllunum sem fer að öskra: "Ísland, Ísland, Ísland!" Nemanja Vranjes slekkur í fólkinu með fyrsta þrist Svartfellinga í síðari hálfleik.

27. mín (54-69) 18 stigum yfir en samt geta Svartfellingar látið skapið fara með sig. Þeir vilja fá óíþróttamannslega villu þegar Hlynur stekkur upp í frákast og einn gestanna beygir sig undir hann. Stórhættulegt. Sá hinn sami, Vladimir Dasic, hefnir sín svo með ruddavillu á Hlyni. Hlynur skorar úr vítinu og Jakob Örn bætir við tveimur stigum.

25. mín (51-67) Kristófer ver skot frá einum Svartfellingnum með tilþrifum. Martin og Hlynur spila svo frábærlega saman í vagg og veltu sem endar með tveimur vítaskotum. Martin setur þó bara niður annað.

23. mín (50-67) Villa dæmd á Svartfellinga sem þeim líkar ekki og þeir byrja að rífa kjaft. Þeir voru alveg svakalega dónalegir og leiðinlegir við íslenska dómaratríóið í leik sínum gegn Andorra. En allavega, Hlynur fær boltann fyrir utan og skorar sína aðra þriggja stiga körfu í leiknum.

22. mín (45-61) Hlynur bætir við tveimur stigum fyrir Ísland eftir flott spil okkar stráka.

21. mín (43-61) Kristófer Acox skorar fyrstu stig seinni hálfleiks og sem betur fer brenna Svartfellingar af fyrsta þriggja stiga skotinu. Hrikalega flott skot hjá Acox samt.

Stigahæstir: Logi Gunnarsson er stigahæstur hjá Íslandi með tólf stig en Hlynur er með tíu stig og aðeins eitt frákast.

20. mín (41-61) Svartfellingar tóku á sprett síðustu tvær og hálfa mínútuna eða svo. Skora fjórtán stig á móti fjórum og eru með 20 stiga forskot í hálfleik. Ég þarf varla að segja ykkur hvernig þeir fóru að því. Jú, settu niður þrjá þrista til viðbótar og eru með tólf stykki í fyrri hálfleik. Martin skorar flautukörfu.

18. mín (39-51) Ég veit þessar endutekningar um þriggja stiga skotin eru orðin þreytt en ég er jafnþreyttur á þessum þristum Svartfellinga og þið. Þeir voru bara að skora sinn tíunda í fyrri hálfleik úr 19 skotum. Eru 53 prósent fyrir utan.

17. mín (37-47) Sóknarleikurinn gengur bara ágætlega hjá Íslandi núna. Jakob spilar Hlyn upp undir körfunni og fyrirliðinn skorar. Eftir að Svartfjallaland setur niður þrist í sókninni á undan. En ekki hvað.

16. mín (35-44) Munurinn kominn niður fyrir níu stig eftir að Logi skorar. Hann er stigahæstur með tólf stig að spila svakalega vel.

15. mín (33-42) Jakob Örn Sigurðarson skorar fimmtu þriggja stiga körfu Íslands. Var alveg galopinn og setti niður skotið. Beið í smá stund, bjóst líklega ekki við að vera svona frír þar sem Svartfellingar spila svo góða vörn.

13. mín (27-40) Þessi skotsýning Svartfjallalands ætlar engan endi að taka. Stóri maðurinn þeirra sem tróð áðan, Milosevic, skorar þrist. Eru 8 af 14 fyrir utan. Hinum megin skorar Hlynur af miklu harðfylgi, fiskar villu og skorar úr vítinu. Þá bæta gestirnir bara við níunda þristinum. Hættið, þessu!

12. mín (24-34) Svartfellingar halda áfram að hitta fyrir utan en það gerir Logi Gunnarsson líka. Búinn að setja tvo þrista á fyrstu 75 sekúndum leikhlutans. Báðir úr horninu. Þar líður Loga vel.

11. mín (18-31) Nemanja Milosevic byrjar annan leikhluta á að troða yfir íslenska liðið með látum og fá villu að auki. Þetta var tröllatroð svo ekki sé meira sagt.

10. mín (18-28) Fyrsta leikhluta lokið. Logi Gunnarsson skorar þrist þegar fimm sekúndur eru eftir af fjórðungnum og munurinn tíu stig. Svartfjallaland er miklu betra. Það er bara þannig. Liðin með samtals 50 prósent nýting fyrir utan teig.

9. mín (13-26) Nú skorar Suad Sehovic þriggja stiga körfu fyrir Svartfjallaland. Eru sex af 9 fyrir utan línuna. Þetta er ekkert hægt!

8. mín (12-23) Þetta er orðið þristasýning. Martin fylgir eftir þriggja stiga körfu Hlyns með einni slíkri en Svartfellingar skora þrist á móti. Það gerir Nikola Pavlevic. Tvær þriggja stiga körfur hjá honum í tveimur tilraunum. Svartfjallaland er að skjóta 5 af 7 fyrir utan.

7. mín (9-20) Hlynur Bæringsson með þriggja stiga körfu, takk fyrir! En hinum megin svara gestirnir. Þeir hitta svakalega fyrir utan.

6. mín (6-17) Svartfellingar setja niður þriðja þristin í fjórum tilranum, en í næstu sókn þeirra stelur Martin boltanum og skilar honum í hraðaupphlaupi á Hlyn sem skorar auðvelda körfu. Frábærlega gert hjá Martin.

5. mín (4-12) Ægir Þór Steinarsson geitungar sig í gang og straujar að körfunni. Hann fiskar villu og skorar úr báðum vítaskotunum. Mjög vel gert. Þjálfari Svartfellinga ekki sáttur með varnarleikinn þarna hjá sínum mönnum.

4. mín (2-12) Kristófer Acox skorar fyrstu stig Íslands eftir rúmar þrjár mínútur þegar hann blakar misheppnuðu þriggja stiga skoti Hlyns ofan í körfuna. Svartfellingar byrja mun betur eins og tölurnar gefa til kynna.

3. mín (0-9) Enn gengur ekkert í sókninni. Tvö skot geiga en Svartfellingar að skora nokkuð auðveldar körfur. Pedersen tekur leikhlé eftir 2:33.

1. mín (0-3) Svartfellingar stela boltanum í fyrstu tveimur sóknum Íslands, af Kristófer og Hlyni og skora fyrstu stigin. Byrjunarlið Íslands: Jakob Örn, Ægir Þór Steinarsson, Logi Gunnarsson, Hlynur Bæringsson, Kristófer Acox.

Fyrir leik: Leikmannakynning er hafin. Svo taka við þjóðsöngvarnir og eftir það eru 40 mínútur af körfubolta. Úrslitaleikur um gullið.

Fyrir leik: Svo verður auðvitað spennandi að sjá Hlyn Bæringsson berjast gegn þessum stóru Svartfellingum. Óskar Ófeigur Jónsson, blaðamaður á Fréttablaðinu á Vísi, nefndi hann stærsta litla stóra mann í Evrópu á síðasta ári sem er einfaldlega besta lýsing á Hlyni sem til er. Það er ótrúlegt að sjá hann slást um boltann við miklu stærri menn í landsleikjum. Fyrirliðinn alltaf til mikillar fyrirmyndar.

Fyrir leik: Það verður fróðlegt að sjá hvernig og hversu mikið, eða bara hvort, Craig Pedersen notar risann Ragnar Nathanaelsson. Kom svolítið á óvart að hann spilaði ekki mínútu gegn Lúxemborg eftir að vera frákastahæstur gegn Andorra. Pedersen sagði eftir leik að Ragnar hefði bara ekki hentað í leikáætlunina gegn Lúxurunum. Ragnar átti mjög erfiða leiktíð með Sundsvall Dragons í vetur þar sem hann fékk lítið að spila og er kominn heim aftur. Hann mun spila með Þór Þorlákshöfn næsta vetur.

Fyrir leik: Áhorfendur eru byrjaðir að streyma inn. Þó enn nóg af lausum sætum. Það verður vonandi flott mæting og stemning í stúkunni. Væri náttúrlega geggja að leggja þetta svartfellska lið og hirða gullið.

Fyrir leik: Íslenska landsliðið náði bronsinu á Smáþjóðaleikunum 2013 eftir tvo sigra og tvö töp í fjórum leikjum. Íslenska liðið vann San Marínó og Andorra en tapaði fyrir Lúxemborg og Kýpur. Ísland hefur ekki unnið körfuboltakeppnina síðan á Kýpur árið 2009.

Fyrir leik: Bæði lið eru mætt út á parketið að hita upp. Þjálfari Svartfellinga, eldri maður, stendur vaktina yfir sínum mönnum. Hann heitir Bogdan Tanjevic og er mikil goðsögn. Hefur unnið titla út um allan heim.

Fyrir leik: Til að gefa einhverja mynd af styrkleika svartfellska liðsins þá er einn leikmaður þess fyrrverandi leikmaður Real Madrid á Spáni. Það er eitt af bestu liðum Evrópu og hefur verið um langt skeið.

Fyrir leik: Sá leikmaður sem hefur vakið hvað mesta athygli í íslenska liðinu er KR-ingurinn Kristófer Acox. Þessi frábæri leikmaður, sonur Terry Acox sem spilaði hér á landi á árum áður, var með tvennu í síðasta leik upp á 14 stig og 11 fráköst, en gegn Andorra skoraði hann 11 stig og tók 6 fráköst. Hann er mikill háloftafugl, frábær í teignum, tekur fráköst og treður hraustlega þegar það á við. Leikmaður sem íslenska liðið hefur ekki alltaf verið svo heppið að hafa.

Fyrir leik: Sigur íslenska liðsins gegn Lúxemborg var óþarflega tæpur. Lúxemborgarmenn náðu að minnka muninn mikið á síðustu mínútunum þegar úrslitin voru ráðin. Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í síðasta leik með 19 stig, en Logi Gunnarsson skoraði mest gegn Andorra eða 16 stig.

Fyrir leik: Íslenska liðið vantar náttúrlega nokkra ása. Jón Arnór Stefánsson er ekki með þar sem hann er enn að spila í úrslitakeppninni á Spáni og þá er Haukur Helgi Pálsson meiddur. Hörður Axel Vilhjálmsson er ekki heldur með frekar en Pavel Ermolinskij.

Fyrir leik: Svartfellska liðið er ógnarsterkt þó í það vanti nánast alla bestu mennina. Körfuboltahefðin í landinu er gríðarleg og því nóg af mönnum að velja úr. Það hefur ekki þurft ða hafa mikið fyrir sigrum sínum á leikunum. Vanalega er það hálfsofandi í fyrri hálfleik en keyrir svo upp í þeim síðari. Þetta verður MJÖG erfiður leikur fyrir strákana okkar.

Fyrir leik: Bæði lið hafa unnið báða leiki sína til þessa og því vinnur sú þjóð sem hefur sigur í dag. Svartfjallaland vann Lúxemborg auðveldlega, 85-58, og Andorra með 20 stigum, 89-69. Ísland vann Lúxemborg á fimmtudaginn, 81-72, og Andorra í fyrsta leik, 83-61.

Fyrir leik: Komiði sæl og verið velkomin með Boltavaktinni í Laugardalshöll þar sem fylgst verður með úrslitaleik Íslands og Svartfjallalands í körfuboltakeppni karla á 16. Smáþjóðaleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×