Körfubolti

Margrét Rósa: Hlakka mjög til að fá Söru Rún til mín út

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði níu stig í gærkvöldi og var frákastahæst.
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði níu stig í gærkvöldi og var frákastahæst. vísir/stefán
Margrét Rósa Hálfdánardóttir átti aftur stórleik fyrir íslenska kvennalandsliðið í körfubolta á Smáþjóðaleikunum í gærkvöldi þegar hún skoraði 14 stig á 15 mínútum í öruggum sigri á Mónakó.

Margrét Rósa kom einnig frábærlega inn í fyrsta leikinn gegn Möltu og skoraði þá tíu stig á síðustu tólf mínútum leiksins þegar mest á reyndi.

Þessi 21 árs gamla Haukastelpa spilaði í bandaríska háskólaboltanum í vetur með Canisius-háskólanum í New York og hefur tekið miklum framförum.

„Þetta var svolítið öðruvísi. Það er svakalega mikill metnaður í þessu úti. Allar stelpurnar eru rosalega góðar og allar vilja fá mínútur,“ sagði Margrét Rósa um Bandaríkjadvölina við Vísi eftir leikinn í gær.

„Æfingarnar eru rosalega strangar. Manni er svolítið pakkað inn í bómul en þetta er rosalega mikil vinna og virkilega skemmtilegt,“ sagði hún.

Margrét Rósa fær íslenskan samherja á næstu leiktíð því einn besti leikmaður Dominos-deildarinnar undanfarin ár, hin 18 ára gamla Sara Rún Hinriksdóttir úr Keflavík, er komin með skólastyrk hjá Canisius-háskólanum.

Sara Rún hefur einnig spilað stórvel með íslenska liðinu á Smáþjóðaleikunum. Hún skoraði sjö stig gegn Möltu í fyrsta leiknum og níu stig og tók sex fráköst gegn Mónakó í gærkvöldi.

„Mér finnst mjög spennandi að fá Söru ti liðsins. Ég held að við eigum eftir að spila vel saman og ég hlakka mjög til að fá hana,“ sagði Margrét Rósa Hálfdánardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×