Handbolti

Fannar og félagar munu ekki spila lokaleikinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fannar er hér í leik með Wetzlar gegn Kiel á sínum tíma.
Fannar er hér í leik með Wetzlar gegn Kiel á sínum tíma. vísir/getty
„Það er alveg ömurlegt að lenda í þessu," segir handboltamaðurinn Fannar Friðgeirsson en félag hans, Grosswallstadt, er gjaldþrota.

Í gær var tilkynnt að Grosswallstadt hefði farið í greiðslustöðvun eftir að félagið fékk ekki keppnisleyfi fyrir næstu leiktíð.

Félagið er því gjaldþrota og þarf að byrja upp á nýtt í C-deildinni næsta vetur án þess að vera með leikmann á samningi. Leikmenn liðsins hafa ekki farið varhluta af vandræðum félagsins en Fannar hefur ekki fengið greidd laun í fimm mánuði.

„Sumir hafa ekki fengið greidd laun lengur en það. Það er búið að segja við okkur að þetta reddist allt en það gekk ekki eftir hjá þeim. Ég, og fleiri, trúðum því sem sagt var við okkur."

Sjá einnig: Grosswallstadt í greiðslustöðvun

Þrátt fyrir alla erfiðleikana þá hefur liðinu gengið merkilega vel en það er í sjötta sæti þýsku B-deildarinnar og var ekki fjarri því að komast upp í úrvalsdeildina.

„Það er búinn að vera mikill pirringur í allan vetur. Menn að spyrja á æfingum hvort einhver hafi fengið laun og svona. Við höfum tapað niður leikjum sem við hefðum átt að vinna létt og það gæti skilið á milli þess hvort við förum upp eða ekki. Ef allt hefði verið eðlilegt hefðum við keppt um að fara upp."

Aðeins ein umferð er eftir í deildinni og lið Fannars á útileik gegn Bayer Dormagen. Sá leikur verður ekki spilaður.

„Við munum ekki spila þennan leik. Þar sem félagið er farið í greiðslustöðvun þá erum við ekki lengur í vinnu og þar af leiðandi ekki tryggðir. Því er enginn að fara að tefla á tvær hættur með að spila leik sem við þurfum ekki að spila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×