Fótbolti

Foreldrar grættu dómara í úrslitaleik á Símamótinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá símamótinu í fyrra. Foreldrarnir sem sjást á myndinni eru ekki þeir sem um er rætt í fréttinni.
Frá símamótinu í fyrra. Foreldrarnir sem sjást á myndinni eru ekki þeir sem um er rætt í fréttinni. vísir/pjetur
„Þetta var í einum úrslitaleiknum í sjöunda flokki og foreldrum varð heitt í hamsi,“ segir Borghildur Sigurðardóttir formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks. „Í kjölfarið létu þau orð falla í garð dómarans sem á endanum brotnaði niður.“

Atvikið átti sér stað á Símamótinu sem haldið er fyrir stelpur í fimmta, sjötta og sjöunda flokki. Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir, sem jafnframt er markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna, vakti athygli á því á Twitter. Þar segir hún að dómari leiksins hafi grátið eftir gagnrýni foreldranna og skammaði þá fyrir framgöngu sína.



„Það gleymist oft að það eru ekki aðeins leikmennirnir sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni heldur líka dómararnir. Þegar þeir höfðu áttað sig á því hvað þau höfðu gert gengu þau inn á völlinn og hughreystu dómarann.“

Fyrir skemmstu fór Knattspyrnusamband Íslands af stað með átakið Ekki tapa þér! sem beint var til foreldra sem rífast og skammast á meðan leikjum þeirra liða stendur. Borghildur segir að sambærileg atvik hafi átt sér stað á öðrum mótum ungmenna í sumar en hún merki samt mun á hegðan foreldra.

„Það er alltaf einn og einn svartur sauður en almennt séð hefur þetta gengið mjög vel. Það voru ekki jafnmörg atvik á þessu móti og hefur oft verið. Aðstandendur þeirra félaga sem tengdust þessu atviki hafa líka hringt og beðist afsökunar á framgöngu foreldranna,“ segir Borghildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×