Fótbolti

Bendtner hetja Wolfsburg gegn Bayern

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Bruyne og Bendtner fagna jöfnunarmarki þess síðarnefnda.
De Bruyne og Bendtner fagna jöfnunarmarki þess síðarnefnda. vísir/getty
Wolfsburg bar sigurorð Bayern München eftir vítaspyrnukeppni í þýska Ofurbikarnum, árlegum leik deildar- og bikarmeistaranna í Þýskalandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Wolfsburg vinnur þennan titil en liðið varð bikarmeistari á síðasta tímabili.

Bayern hefur hins vegar tapað leiknum um Ofurbikarinn þrjú ár í röð en Pep Guardiola hefur ekki enn tekist að vinna þennan titil sem knattspyrnustjóri Bayern.

Arjen Robben kom Bayern yfir á 49. mínútu eftir undirbúning Douglas Costa og skot Roberts Lewandowski.

Allt stefndi í sigur þýsku meistaranna en danski framherjinn Nicklas Bendtner jafnaði metin mínútu fyrir leikslok með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kevins De Bruyne, stoðsendingakóngs þýsku deildarinnar í fyrra.

Fleiri urðu mörkin ekki og því var farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar sýndu leikmenn Wolfsburg mikið öryggi og sendu Manuel Neuer, hinn frábæra markvörð Bayern, ítrekað í rangt horn.

Leikmenn Bayern skoruðu úr fjórum spyrnum en belgíski markvörðurinn Koen Casteels varði frá Xabi Alonso. Það var svo áðurnefndur Bendtner sem skoraði úr síðustu spyrnu Wolfsburg og tryggði liðinu sigurinn.

Vítaspyrnukeppnin:

1-0 Arturo Vidal

1-1 Ricardo Rodríguez

1-1 Xabi Alanso, varið

1-2 Kevin De Bruyne

2-2 Arjen Robben

2-3 André Schürrle

3-3 Philipp Lahm

3-4 Max Kruse

4-4 Douglas Costa

4-5 Nicklas Bendtner




Fleiri fréttir

Sjá meira


×