Handbolti

Óðinn og Ómar Ingi báðir meðal fimm markahæstu manna á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Rikharðsson.
Óðinn Rikharðsson. Mynd/Fésbókarsíða IHF um mótið
Óðinn Rikharðsson og Ómar Ingi Magnússon hafa skorað flest mörk allra íslensku strákanna í fyrstu fjórum leikjum íslenska 19 ára landsliðsins á HM í Rússlandi.

Íslenska liðið er búið að vinna fyrstu fjóra leiki sína í riðlinum og er þegar búið að tryggja sér efsta sætið þótt að einn leikur sé eftir.

Örvhentu menn íslenska liðsins hafa farið á kostum til þessa á mótinu. Óðinn og Ómar Ingi eru báðir meðal fimm markahæstu leikmanna mótsins. Óðinn er í 3. til 4. sæti með 26 mörk í 4 leikjum og Ómar Ingi er í 5. sæti með 24 mörk.

Íslenska liðið hefur unnið Þýskaland (34-26), Spán (25-24), Egyptaland (31-29) og Noreg (32-29) á mótinu.

Óðinn var markahæstur á móti Þjóðverjum og Egyptum með átta mörk í hvorum leik og Ómar Ingi var markahæstur á móti Spánverjum og Norðmönnum með átta mörk í hvorum leik.

Ómar skoraði meðal annars þrjú mörk á tíu mínútna kafla þegar íslenska liðið breytti stöðunni úr 24-19 fyrir Noreg í 27-27 með 8-3 spretti en Óðinn skoraði tvö mörk á þessum frábæra kafla íslensku strákanna í gær.

Óðinn Rikharðsson, sem er sautján ára gamall, er hægri hornamaður og spilaði með HK í Olís-deildinni síðasta vetur. Hann ætlar að spila með Fram á komandi tímabili.

Ómar Ingi Magnússon, sem er átján ára gamall, er hægri skytta eða leikstjórnandi sem er uppalinn á Selfossi en spilaði með Val á síðustu leiktíð.

Óðinn hefur nýtt 70,3 prósent skota sinna á mótinu (26 mörk í 37 skotum) en hann hefur skorað 14 marka sinna úr hraðaupphlaupum.

Ómar Ingi hefur nýtt 61,5 prósent skota sinna á mótinu (24 mörk í 39 skotum) en ellefu af mörkum hans hafa komið úr vítum.

Óðinn og Ómar Ingi eru í nokkrum sérflokki í markaskorun hjá íslenska liðinu en sá þriðji markahæsti í íslenska liðinu eru þeir Egill Magnússon og Birkir Benediktsson með tíu mörk hvor.  






Tengdar fréttir

Er miklu betri í stuttbuxunum

Grétar Ari Guðjónsson og félagar í U-19 ára landsliðinu í handbolta hafa unnið alla sína leiki á HM í Rússlandi og eru til alls líklegir. Grétar hefur vakið athygli á mótinu, bæði fyrir frammistöðu, sem og klæðaburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×