Íslenski boltinn

Guðjón Árni: Engin óeining í leikmannahópnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Árni í leik gegn KR fyrr í sumar.
Guðjón Árni í leik gegn KR fyrr í sumar. Vísir/Pjetur
Keflavík féll úr Pepsi-deild karla í dag og segir Guðjón Árni Antoníusson, fyrirliði Keflavíkur, að það sé margt sem hafi farið úrskeðis í sumar. Guðjón Árni stefnir á að spila í þrjú ár í viðbót þrátt fyrir að hafa orðið fyrir höfuðmeiðslum í sumar.

Keflavík tapaði í dag fyrir Val, 3-2, og féll þar með endanlega úr Pepsi-deild karla. Guðjón Árni segir að ýmislegt hafi mátt betur fara en að stjórnarkosning í vetur hafi ekki haft áhrif á leikmannahóp liðsins.

„Þetta er búið að hanga yfir okkur lengi og við  ætluðum að njóta þess að spila fótbolta í síðustu umferðunum. Það gekk að hluta til upp í kvöld en niðurstaðan engu að síður tap.“

Hann segir að sumarið hafi verið erfitt og að það sé ekki hægt að lýsa því nánar.

„Það er bara svo margt sem hægt er að týna til og hægt að finna endalausar ástæður fyrir því að þetta fór eins og það fór.“

Keflavík var ekki spáð falli í vor en Guðjón Árni segist ekki hafa verið svo öruggur með sig og sitt lið í upphafi móts.

„Það var bras á okkur í vetur og pínu værð yfir okkur - allt of mikil værð. Við mættum ekki klárir í mótið. Við ætluðum ekki að örvænta en svo varð það alltaf erfiðara og erfiðara að fara upp þessa brekku.“

Það var rætt um óeiningu innan félagsins í kjölfar stjórnarkosningar í knattspyrnudeildinni og að það hafi haft áhrif á leikmannahópinn. Guðjón Árni segir að það sé ekki rétt.

„Það hefur verið nokkuð létt yfir þessu miðað við allt. Það fór fram stjórnarkosning en það kom leikmönnum ekkert við. Hvert félag þarf að ganga í gegnum slíkt.“

Frammistaða Keflavíkur í fyrri hálfleik í kvöld var góð en það var ekki nóg.

„Við áttum séns á að jafna í lokin en það gekk ekki. Við spiluðum ágætlega en eins og svo oft áður þá náðum við ekki að dekka menn í teignum. Það varð okkur að falli í dag.“

Guðjón Árni fékk höfuðhögg í sumar og var því nokkuð frá. Hann hefur verið að glíma við höfuðmeiðsli undanfarin ár en segist eiga nóg eftir.

„Mér hefur ekki liðið jafn vel í þrjú ár. Ég fékk enn eina greininguna um að þetta væri ekki hættulegt, þrátt fyrir að ég hafi fengið svima.“

„Ég mátti ekki taka neinar áhættur sem og ég gerði. En það er erfitt að spila fótbolta án þess að taka áhættu en þetta hefur gengið vel hjá mér. Ég á þrjú ár inni,“ sagði hann og brosti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×