Körfubolti

Haukar slógu út Íslandsmeistarana | Úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Auðunn
Haukar unnu í kvöld óvæntan 88-82 sigur á KR í 8-liða úrslitum Lengjubikars karla í körfuknattleik en Ægir Þór Steinarsson, nýjasti liðsmaður KR, fór á kostum í leiknum.

KR tefldi fram sterku liði þrátt fyrir að það vantaði leikmennina Michael Craion og Helga Má Magnússon en í liði KR mátti finna Pavel Ermolinskij og Ægi Þór úr landsliðshópnum og Brynjar Þór Björnsson úr æfingarhópnum.

Haukar náðu strax 12 stiga forskoti að fyrsta leikhluta loknum og var KR alltaf að eltast við forskotið það sem eftir lifði leiksins. Náðu þeir forskotinu um tíma í fjórða leikhluta en Haukar settu þá aftur í gír og sigldu sigrinum heim.

Stephen Michael Madison fór fyrir liði Hauka með 23 stig ásamt því að taka 13 fráköst og þá bætti Haukur Óskarsson við 20 stigum með 57% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Í liði KR var það Ægir Þór sem var stigahæstur með 25 stig en þar að auki tók hann 8 fráköst og stal boltanum 8 sinnum.

Marvin var með átta stig í kvöld.Vísir/Vilhelm
Byrjunarliðsmenn Þórs frá Þorlákshöfn sáu um stigaskorunina í 85-75 sigri á Tindastól í Þorlákshöfn í kvöld. Aðeins fjögur stig komu frá leikmönnum sem byrjuðu á bekknum í sannfærandi sigri heimamanna sem slepptu aldrei forskotinu eftir að hafa náð því um miðbik annars leikhluta.

Þá vann Stjarnan góðan sigur á Grindavík í Röstinni í kvöld. Eftir að hafa verið einu stigi undir að loknum fyrsta leikhluta leiddu leikmenn Stjörnunnar það sem eftir lifði leiksins. Alfonzo Coleman fór fyrir liði Stjörnunnar með 22 stig en í liði Grindavíkur var Jóhann Árni Ólafsson stigahæstur með 18 stig.

Þá gerði FSu út um leik liðsins gegn Njarðvík strax í fyrri hálfleik í leik liðanna í kvöld. FSu var með 29 stiga forskot í hálfleik og náði þegar mest var 44 stiga forskoti en leikmönnum Njarðvíkur tókst að klóra í bakkann í lokaleikhlutanum og lauk leiknum með 113-78 sigri FSU.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×