Skoðun

Friðun miðhálendis: Forgangsmál

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Vorið 1928 samþykkti Alþingi lög um friðun Þingvalla, sem lýstu Þingvelli við Öxará friðlýstan helgistað allra Íslendinga frá og með upphafi þjóðhátíðarársins 1930. Voru með þessu mörkuð þau mikilvægu tímamót í sambúð lands og þjóðar að verndargildi landsvæðis í almannaeigu hlaut viðurkenningu löggjafans og gerðar voru ráðstafanir í samræmi við það sem miðuðu að því að varðveita þar menningarminjar og náttúrufar.

Eitt forgangsmál Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þessu þingi er stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Friðun miðhálendisins hefur verið til umræðu allt frá tíunda áratug síðustu aldar þegar Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og þingmaður lagði fram tillögu um að stofnaðir yrðu fjórir þjóðgarðar á miðhálendinu umhverfis helstu jökla þess: Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul.

Sú tillaga þróaðist yfir í að verða sérstök tillaga um Vatnajökulsþjóðgarð sem var samþykkt og lyktaði með stofnun þess þjóðgarðs. Flestir munu þakklátir fyrir það skref enda er hið ósnortna hálendi auðlind í sjálfu sér sem okkur ber skylda til að vernda fyrir frekari ágangi og varðveita í þágu fjölbreytni náttúrunnar. Auk heldur skilar það miklum efnahagslegum ávinningi sem áfangastaður ferðamanna í leit að einstakri reynslu. Hinn efnahagslegi ávinningur er umtalsverður þó að mestu skipti að ósnortin náttúra hefur gildi óháð mannlegum mælikvörðum.

Fimmtán hugmyndirÍ hugmyndabanka orkufyrirtækjanna má nú finna að minnsta kosti fimmtán hugmyndir að virkjunum og uppistöðulónum á hálendinu. Þá eru uppi ýmsar hugmyndir um raflínulagnir og uppbyggða vegi á hálendinu. Þessar hugmyndir sýna hve takmörkuð sýn á auðlindir er ráðandi á þeim bæjum. Ef byggja á upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar þarf að fjölga stoðum efnahagslífsins og fjárfesta margfalt meira í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Eins má skjóta styrkari stoðum undir stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustuna, meðal annars með náttúruvernd.

Fjölbreytt atvinnustefna skilar stöðugra efnahagslífi án þess að ganga á náttúruna eins og stóriðjustefnan sem því miður er orðin þráhyggja hjá sumum í ríkisstjórnarflokkunum og hjá orkufyrirtækjunum. En nú er kominn tími til að leggja hana á hilluna og taka stefnuna í staðinn á fjölbreytt atvinnulíf þar sem traustur efnahagur auðgast af náttúruvernd.

Mikilvægi miðhálendisinsTillaga þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um nýjan þjóðgarð á miðhálendinu er í takt við nýja atvinnustefnu þar sem skilningur ríkir á mikilvægi miðhálendisins. Vonandi ber þinginu gæfa til að samþykkja hana með tilliti til langtímahagsmuna Íslendinga. Rétt eins og við sem nú byggjum land erum þakklát þeim sem horfðu fram á veg og samþykktu að stofna þjóðgarð á Þingvöllum árið 1928 tel ég víst að eftir 90 ár verði almenningur þakklátur þeim þingheimi sem samþykkir að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×