Fótbolti

Müller: Lyfjaeftirlitið fylgist með mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Müller.
Thomas Müller. vísir/getty
Thomas Müller, framherji Þýskalandsmeistara Bayern München, skoraði eitt mark í 5-1 sigri Bæjara á Dortmund í uppgjöri efstu liða deildarinnar aí dag.

Bayern er nú með sjö stiga forskot eftir aðeins sjö umferðir og virðist ekki ætla að vera mikil spenna í deildinni þetta tímabilið.

Müller hefur verið í miklu stuði á leiktíðinni og markið í dag var hans áttunda í jafn mörgum leikjum.

„Lyfjaeftirlitið fylgist með mér,“ sagði Müller hlægjandi við blaðamenn um velgengni sína á tímabilinu.

Framherjinn skoraði mark eftir sendingu frá Jérome Boateng sem hann segir að hafi ekki verið farið yfir á æfingasvæðinu.

„Við litum snögglega í augun á hvorum öðrum og hann sendi boltann í auða svæðið. Það er ekki hægt að plana hverja einustu sendingu. stundum þarf maður bara að bregðast við,“ sagði Thomas Müller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×