Körfubolti

Ragnar: Þurfti að taka til í hausnum á mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Nathanaelsson tekur eitt af 17 fráköstum sínum í kvöld.
Ragnar Nathanaelsson tekur eitt af 17 fráköstum sínum í kvöld. Vísir/Stefán
Ragnar Nathanaelsson átti stórleik með liði Þórs frá Þorlákshöfn í kvöld en hann skoraði 25 stig gegn KR í kvöld og tók sautján fráköst, þar af tíu sóknarfráköst. KR vann þó leikinn, 90-80, eftir að gestirnir leiddu framan af kvöldi.

„Það er auðvitað svekkjandi að tapa en við erum á uppleið. Við spiluðum töluvert betur í kvöld en gegn Keflavík. Við spiluðum hörkuvörn gegn gríðarlega góðu KR-liði.“

„Við erum því ekkert allt of sárir. Auðvitað viljum við vinna alla leiki en þetta eru ríkjandi Íslandsmeistarar og við getum lært af þessum leik.“

Michael Craion hefur verið talinn besti stóri maður Domino's-deildarinnar síðastliðin ár en Ragnar hafði betur í baráttunni við hann í kvöld.

„Það var ekki planið að senda einhver skilaboð. Ég ætlaði bara að spila minn leik. Það var nú varla búið að minnast á mig í þessu tali en ég mætti bara og vildi aðallega sýna fyrir sjálfum mér að ég gæti spilað vel á móti öðrum stórum mönnum.“

Hann var ánægður með hversu agaðan leik hann sýndi í kvöld en Ragnar fékk aðeins þrjár villur í leiknum.

„Ég þurfti aldeilis að taka til í hausnum á mér eftir síðasta leik. Ég gerði það og kom tilbúinn í þennan leik. Ég var ósáttur við sjálfan mig eftir síðasta leik en er sáttur við mig í dag.“


Tengdar fréttir

Brynjar: Craion ekki í sínu besta formi

Ragnar Nathanaelsson, Þór Þorlákshöfn, fór illa með Bandaríkjamanninn Michael Craion hjá KR í viðureign liðanna í Domino's-deildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×