Körfubolti

Hrafn: Ekki draumabyrjun en mjög góð byrjun

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Hrafn Kristjánsson bleikur á hliðarlínunni í kvöld.
Hrafn Kristjánsson bleikur á hliðarlínunni í kvöld. vísir/vilhelm
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki tilbúinn að taka undir þau orð blaðamanns Vísis að Garðbæingar hefðu fengið draumabyrjun á tímabilinu með fjögurra stiga sigri, 80-76, á Íslandsmeisturum KR í kvöld.

"Draumabyrjun? Gerum bara deildinni greiða og hættum að tala um að þetta sé bara formsatriði fyrir KR sem eigi að vera ósnertanlegir," sagði Hrafn eftir leikinn í Ásgarði í kvöld.

"Þá er ég ekki að segja að þeir séu ekki með besta liðið, því á pappírunum eru þeir með það. En það er fullt af liðum sem langar að taka þetta og hafa trú á þessu.

"Þetta var ekki draumabyrjun en mjög góð byrjun á tímabilinu engu að síður."

Stjarnan byrjaði leikinn vel og komst fljótlega í 11-2. KR-ingar voru þó fljótir að ná áttum og leikurinn var gríðarlega jafn það sem eftir var.

"Mér fannst þetta vera ofboðslega fagur fyrri hálfleikur þótt það væri ekki mikið skorað," sagði Hrafn.

"Mér fannst bæði lið spila hörkuvörn og það var frábært að horfa á (Michael) Craion og Zo (Al'lonzo Coleman) spila vörn á hvorn annan. Þeir eru greinilega að stúdera hvorn annan," bætti Hrafn við en Coleman fór heldur betur í gang í 4. leikhluta þar sem hann skoraði 14 af 23 stigum sínum.

"Hann er ekki mesti íþróttamaðurinn en þetta er leikmaður sem ætlar sér að verða þjálfari þegar hann hættir að spila. Hann skilur leikinn mjög vel og vegur það sem hann vantar upp á í sprengikrafti með leikskilningi.

"Hann kann á kerfið okkar og það er kannski ekki vandamál þótt hann sé ekki að skora löngum stundum," sagði Hrafn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×