Körfubolti

Margrét Rósa með 67 prósent þriggja stiga skotnýtingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Rósa Hálfdanardóttir.
Margrét Rósa Hálfdanardóttir. Vísir/Stefán

Margrét Rósa Hálfdanardóttir gat ekki hjálpað íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta í leikjunum á móti Ungverjum og Slóvakíu í undankeppni EM en hún er í stóru hlutverki hjá körfuboltaliði Canisius-háskólans.

Margrét Rósa átti enn á ný góðan leik í nótt þegar Canisius vann 80-50 heimasigur á Binghamton-skólanum. Margrét Rósa skoraði 14 stig á 23 mínútum og var stigahæst í liðinu. Næststigahæsti leikmaðurinn var síðan landa hennar Sara Rún Hinriksdóttir með 12 stig.

Sara Rún Hinriksdóttir er nýliði hjá Canisius-liðinu og þetta var hennar besti leikur til þessa en Sara skoraði 12 stig á 15 mínútum. Sara Rún hitti meðal annars úr báðum þriggja stiga skotum sínum í leiknum og Margrét Rósa setti niður 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum. Saman hittu íslensku stelpurnar því úr 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum.

Íslenska kvennalandsliðið saknaði líka Söru í leikjunum en báðar voru þær tvær af þremur stigahæstu leikmönnum landsliðsins í fyrstu sex landsleikjum ársins.

Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem Margrét Rósa er stighæst hjá Canisius-háskólaliðinu en hún skoraði 19 stig í sigri á Saint Francis og 12 stig í tapi á móti Buffalo-skólanum.

Margrét Rósa hefur skorað 12,5 stig að meðaltali í leik í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins en Sara Rún er með 5,8 stig að meðaltali á 12,3 mínútum í leik.

Margrét Rósa hefur nýtt skotin sín frábærlega í þessum fyrstu fjórum leikjum vetrarins en hún er meðal annars með 67 prósent þriggja stiga nýtingu, hefur nýtt 10 af 15 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×