Innlent

Ráðherrar fá 100 þúsund króna hækkun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Laun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra hækka um 118.384 krónur.
Laun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra hækka um 118.384 krónur. vísir/villi
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, segir hækkunina óréttláta
„Það er mikið óréttlæti fólgið í þessu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um 9,3 prósent launahækkun þeirra sem heyra undir kjararáð.

Laun embættismanna og kjörinna fulltrúa sem heyra undir kjararáð hækka frá 1. mars á þessu ári samkvæmt úrskurði kjararáðs.

Þetta þýðir að grunnlaun þingmanna hækka um 60.585 krónur í alls 712.030 krónur og fá þeir eingreiðslu upp á 545.265 krónur þar sem hækkunin er afturvirk.

Þá hækka grunnlaun ráðherra, fyrir utan forsætisráðherra, um 106.991 krónu, í 1.257.425 krónur, með eingreiðslu upp á 962.919 krónur.

Laun forsætisráðherra hækka um 118.384 krónur, í 1.391.333 krónur, með eingreiðslu upp á 1.065.456 krónur.

Laun forseta hækka um 196.962 krónur, í 2.314.830 krónur, með eingreiðslu upp á 1.772.658 krónur.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti fær 1.772.658 króna eingreiðslu.vísir/valli
Úrskurður gerðardóms um laun félaga í Bandalagi háskólamanna og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga leiddi til 9,3 prósenta launahækkana að meðaltali á árinu og var sú tala höfð að leiðarljósi við úrskurð kjararáðs.

Vilhjálmur Birgisson segir prósentutöluna aðeins segja hálfa söguna.

„Krónutölurnar sem liggja þarna að baki hljóða ekki upp á 25 þúsund króna hækkun eins og íslenskt verkafólk fékk í sínum kjarasamningum,“ segir Vilhjálmur. „Þetta sýnir það sem ég hef bent á. Hvernig prósenturnar eru aflgjafi óréttlætis i íslensku samfélagi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×