Körfubolti

Snæfell verður án Sigurðar í síðustu leikjum ársins

Tóams Þór Þórðarso skrifar
Sigurður Þorvaldsson er meiddur.
Sigurður Þorvaldsson er meiddur. vísir/andri marinó
Sigurður Þorvaldsson, lykilmaður í liði Snæfells í Dominos-deild karla í körfubolta, verður ekki meira með fyrir áramót vegna meiðsla.

Þetta kemur fram á karfan.is, en Sigurður hefur átt við meiðsli í kálfa að stríða síðan í leik gegn Njarðvík 18. október og verður nú að taka pásu samkvæmt ráði sjúkraþjálfara.

Þetta er mikið áfall fyrir þunnskipað lið Snæfells, en Sigurður hefur verið lykilmaður þess um árabil og er á þessu tímabili að skora 14 stig og taka sjö fráköst að meðaltali í leik.

Bara Bandaríkjamaðurinn Sherrod Wright skorar meira (26 stig í leik) og miðherjinn Stefán Karel tekur fleiri fráköst (8,3 í leik) en Sigurður hjá Snæfellsliðinu.

Snæfell tapaði illa fyrir ÍR á heimavelli í síðasta leik, 96-72, en liðið er í sjöunda sæti deildarinnar með átta stig líkt og Tindastóll, Grindavík og ÍR.

Snæfell á eftir erfiða leiki gegn Stjörnunni úti og Þór Þorlákshöfn heima áður en Dominos-deild karla fer í jólafrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×