Handbolti

Mats Olsson um "markið" á HM í handbolta: Þetta er skandall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mats Olsson er gáttaður yfir ákvörðun IHF að senda þá Anton og Jónas heim af HM.
Mats Olsson er gáttaður yfir ákvörðun IHF að senda þá Anton og Jónas heim af HM. vísir/epa
Sú ákvörðun IHF, Alþjóðahandknattleikssambandsins, að senda íslenska dómaraparið Anton Gylfa Pálsson og Jónas Elíasson heim af HM kvenna í Danmörku hefur mælst misjafnlega fyrir.

Anton og Gylfi voru sendir heim vegna mistaka sem áttu sér stað í leik Suður-Kóreu og Frakklands í gær þar sem löglegt mark var dæmt af Suður-Kóreu. Anton dæmdi markið gott og gilt en eftir nánari skoðun á myndbandi dæmdi Bjarne Munk, eftirlitsdómari leiksins, markið ógilt.

Sjá einnig: Anton og Jónas ætla ekkert að tjá sig um markið | Myndband

Margir hafa komið Antoni og Jónasi til varnar en meðal þeirra er Mats Olsson, markmannsþjálfari norska landsliðsins. Olsson sá atvikið í sjónvarpi eftir stórsigur Noregs á Púerto Ríkó og var steinhissa á því eins og flestir.

„Þetta er skandall,“ sagði Olsson, sem stóð í marki sænska landsliðsins um langt árabil, í samtali við Aftenposten.

„Það er ekki gott þegar svona lagað gerast en af hverju að senda dómarana heim? Þetta er ekki góð ákvörðun. Sá sem lætur eftirlitsdómarann hafa myndefnið vegna marklínutækninnar er ábyrgur,“ bætti Olsson við en hann vill halda í marklínutæknina þrátt fyrir þetta furðulega atvik.

„Marklínutæknin virkaði vel á HM karla í Katar. Það er vitleysa að hætta með kerfi sem virkar. IHF ætti að líta í eigin barm.“

Sjá einnig: Formaður dómaranefndar HSÍ: Framkoman gagnvart Antoni og Jónasi til skammar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×