Innlent

Vonar að albönsku fjölskyldurnar komi aftur fyrir áramót

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Albönsku fjölskyldurnar tvær sem sendar voru úr landi síðasta fimmtudag hafa sótt um íslenskan ríkisborgararétt, í stað þess að sækja um hæli. Vinur fjölskyldnanna vonar að málið verði afgreitt hratt og að þær komi aftur hingað til lands fyrir áramótin.

Hermann Ragnarsson hefur í dag unnið hörðum höndum að því að útvega öll nauðsynleg gögn til að sækja um ríkisborgararétt fyrir albönsku fjölskyldurnar, en annar fjölskyldufaðirinn starfaði fyrir hann á Íslandi. Í báðum fjölskyldum eru veik börn, Kevi er með slímseigjusjúkdóm og Arjan fæddist með hjartagalla.

„Í þessu töluðu orðum núna er verið að senda inn á formann allsherjarnefndar og Útlendingastofnum umsóknum um ríkisborgararétt,“ sagði Hermann þegar við náðum tali af honum rétt fyrir klukkan sex í kvöld.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, sagði fyrr í dag við Vísi að ef umsókn um ríkisborgararétt fyrir fjölskyldurnar berist nefndinni muni hún yfirfara þær. Venjulega fari nefndin aðeins yfir umsóknir á vormánuði og í desember hvers árs. Sá tími sé í raun liðinn en ef um sérstakar aðstæður er að ræða má nefndin lögum samkvæmt taka slíkar umsóknir fyrir hvenær sem er.

„Næstu skref eru að allsherjarnefnd fari yfir málið sem tekur vonandi réttar ákvarðanir í þessu. Það er ekki hægt að hjálpa þessum börnum öðruvísi, ég er búinn að kanna það vel,“ segir Hermann.

Hermann hefur mikla trú á að fólkið fái ríkisborgararétt á Íslandi.

„Vonandi fyrir þinglok, áður en þingið fer í jólafrí,“ segir hann. 

Á þessu ári hafa 108 Albanir sótt um hæli hér á landi en enginn þeirra hefur fengið hæli. 

Eurostat gaf í síðustu viku út tölur um flóttafólk og hælisleitendur fyrir þriðja ársfjórðung 2015 en þar kemur fram að albanir séu fjórði stærsti hópur hælisleitenda í Evrópu. Langflestum þeirra var synjað, eða rúmlega sautján þúsund, en engu að síður fengu umsóknir 205 Albana afgreiðslu. 45 fengu stöðu flóttamanns, 75 fengu vernd af öðrum ástæðum og 85 albanir fengu hæli af mannúðarástæðum. Það er því ekki algilt að öllum umsóknum Albana um hæli sé synjað þó Albanía sé samkvæmt flóttamannalögum ekki skilgreint sem hættulegt land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×