Skólavörðustígur og hluti Laugavegs eiga í dag að standa lokaðir fyrir bílaumferð. Hliðinu við Laugaveg hefur nú verið lokað á ný en fyrr í dag stóð það opið. Þá stóð hliðið að Skólavörðustíg einnig opið síðasta laugardag, samkvæmt sjónarvottum.
Grafíski hönnuðurinn Bobby Breiðholt setti inn mynd af hliðinu við Laugaveg opnu á Twitter fyrr í dag og sagði kaupmenn „koma hlaupandi og opna hliðin jafnóðum og þeim er lokað.“ Þá segist fréttavefurinn Nútíminn hafa heimildir fyrir því að vegfarandi hafi náð myndum af kaupmönnunum og komið þeim til lögreglu.
Ákveðnir kaupmenn koma hlaupandi með verkfæri og opna hliðin jafnóðum og þeim er lokað. Ógeðis frekja og yfirgangur. pic.twitter.com/mOXJLjkkG7
— Bobby Breiðholt (@Breidholt) December 12, 2015

Þó er ljóst að einhverjir kaupmenn setja sig upp á móti lokuninni. Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, sagði í samtali við Ísland í dag nýlega að henni hefði verið mótmælt á fundi kaupmanna með borgaryfirvöldum. Þá segir Gunnar Guðjónsson, formaður samtakanna, sömuleiðis að lokanirnar leggist illa í kaupmenn í Morgunblaðinu í dag.
Ekki náðist í Hjálmar Sveinsson við gerð þessarar fréttar.
Innslag Íslands í dag um lokanirnar á Laugavegi má sjá hér fyrir neðan.