Handbolti

Áfall fyrir bæði Guðmund og Alfreð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
René Toft Hansen í leik á móti Íslandi á æfingamótinu á dögunum.
René Toft Hansen í leik á móti Íslandi á æfingamótinu á dögunum. Vísir/Getty
René Toft Hansen, lykilmaður Kiel og danska landsliðsins, meiddist á hné í leik Kiel og Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og óttast er að meiðslin séu alvarleg.

René Toft Hansen var borinn af velli og Kiel skrifar á heimasíðu sinni að menn þar á bæ búa sig undir það að fá slæmar fréttir.

„Við erum í sjokki. Fyrirliðinn okkar, René Toft Hansen, gæti verið alvarlega meiddur á hné. Við krossum fingur og vonum það að hann geti spilað aftur sem fyrst. Góðan bata," skrifaði Kiel á heimasíðu sinni.  

Þetta væri mikið áfall fyrir bæði Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel og Guðmund Guðmundsson, þjálfara danska landsliðsins.

Alfreð hefur verið afar óheppinn með meiðsli sinna manna á þessu tímabili en Patrick Wiencek, Dominik Klein, Joan Canellas og Rune Dahmke eru allir meiddir. Eftir meiðsli René Toft Hansen í gær kallaði Alfreð enn á ný eftir því að leyfa fleiri leikmenn á skýrslu svo hægt sé að dreifa álaginu betur. Alfreð vill sjá sextán manna leikmannahópa í leikjunum.

Kiel minnkaði forskot Rhein-Neckar Löwen í tvö stig með þessum sigri í gær en næsti leikur þýsku liðanna er ekki fyrr en eftir Evrópumótið í Póllandi.

René Toft Hansen er algjör lykilmaður í vörn danska landsliðsins og liðið þarf á honum að halda á Evrópumótinu í Póllandi í næsta mánuði í baráttunni um Evrópumeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×