Snjallsímanotendur hafa margir hverjir tileinkað sér líkamsstöðu sem nefnd hefur verið textaháls eða „text neck“, en þá er höfuðið beygt fram og niður um 60 gráður. „Þessi staða veldur auknu þrýstiálagi á hryggþófa og liðboli framanvert á efri hluta hryggjar en togálagi aftanvert þar sem strekkist á vöðvum, liðböndum og liðpokum,“ útskýrir sjúkraþjálfarinn dr. Harpa Helgadóttir.
„Ef við horfum í kringum okkur sjáum við að fólk eyðir jafnvel mörgum klukkutímum á dag með höfuðið í þessari stöðu. Ef stöðunni er haldið í um tvær til fjórar klukkustundir á dag að meðaltali, verður hálshryggurinn fyrir þessu óæskilega álagi á milli 700 til 1.400 klukkustundir á ári. Ef hálsinn er oft eða lengi í þessari stöðu í senn geta átt sér stað varanlegar breytingar á vefjum og hæfni þeirra til að styðja við eðlilega stöðu liðanna minnkar. Ótímabærar slitbreytingar í liðum og tognun vefja eiga sér þá stað og geta leitt til verkja og í sumum tilfellum þarf að grípa til skurðaðgerða,“ útskýrir Harpa.
Harpa og kollegi hennar, dr. Guðný Lilja Oddsdóttir, hafa áhyggjur af þessum fylgifiskum snjallsímanotkunarinnar ekki síst í ljósi þess að notendahópurinn yngist með hverju árinu sem líður. Þær eru báðar sérfræðingar í stoðkerfinu og hafa unnið við rannsóknir á hálshrygg. Þær verða í auknum mæli varar við vandamál tengd snjallsíma-, fartölvu- og spjaldtölvunotkun.

Harpa segir að fartölvunotendur þurfi að hafa þetta í huga, ekki síst ungmenni og námsmenn sem sitja við, tímunum saman. „Það er allt of algengt að fólk bogri yfir fartölvunni löngum stundum en þetta má auðveldlega laga með einföldum bóka- og fartölvustandi.“
