Körfubolti

Helena stigahæst í landsleik í fertugasta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena á ótrúlegan landsliðsferil að baki.
Helena á ótrúlegan landsliðsferil að baki. fréttablaðið/stefán
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, fór fyrir sex stiga sigri á Dönum í gær á æfingamótinu í Amagerhallen.

Helena skoraði 21 stig í leiknum þar af sextán þeirra í seinni hálfleiknum og framlengingu sem íslenska liðið vann samtals með þrettán stigum, 46-33, og tryggði sér með því þriðja sigurinn á Dönum frá upphafi.

Helena var líka nálægt þrennunni því hana vantaði "bara" tvö fráköst og tvo stolna bolta til að landa henni.

Helena hitti meðal annars úr þremur af síðustu fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum og þar af komu tvær þeirra í fjórða leikhluta og framlengingu.

Helena skoraði tíu stigum meira en næststigahæsti leikmaður íslenska liðsins í leiknum sem var Sara Rún Hinriksdóttir með 11 stig.

Helena náði með þessu skemmtilegum tímamótum á landsliðsferli sínum því hún var stigahæst í leik hjá kvennalandsliðinu í fertugasta sinn.

Helena hefur þar með skorað flest stig fyrir íslenska landsliðið í 40 af 55 landsleikjum sínum fyrir Ísland.

Þetta voru ekki einu tímamótin hjá Helenu því þetta var janframt í tuttugasta sinn sem hún skorað 20 stig eða meira í landsleik. Ísland hefur unnið 12 af þessum 20 leikjum.

Dönsku stelpurnar hafa oft lent í vandræðum með hana því Helena hefur skorað 123 stig í sex landsleikjum sínum á móti Dönum eða 20,5 stig að meðaltali í leik.

Oftast stigahæst í leik með íslenska kvennalandsliðinu:

Helena Sverrisdóttir 40 leikir

Anna María Sveinsdóttir 24

Birna Valgarðsdóttir 18

Erla Þorsteinsdóttir 10

Signý Hermannsdóttir 8

Björg Hafsteinsdóttir 6

Guðbjörg Norðfjörð 5

Flestir tuttugu stiga leikir með íslenska kvennalandsliðinu:

Helena Sverrisdóttir 20

Birna Valgarðsdóttir 8

Anna María Sveinsdóttir 8

Björg Hafsteinsdóttir 4

Signý Hermannsdóttir 2

Erla Þorsteinsdóttir 2


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×