Það var Landsbankinn sem seldi hlutinn í Borgun. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefur talað um að skoðað yrði hvort forsendur væru til þess að rifta sölunni. Einar vill ekki tjá sig um þau ummæli bankastjórans. „Ég læt ekki blanda mér í þá umræðu.“ Einar segist ekki heldur geta svarað þeirri spurningu hvort hann myndi grípa til varna ef Landsbankinn tæki ákvörðun um að höfða riftunarmál. „Ef og hefði, ég get ekki svarað svona.“
Það hefur vakið tortryggni að Einar og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eru frændur. En Einar segist ekki hafa látið frænda sinn vita af því að hann hygðist taka þátt í þessum viðskiptum. „Nei, ég hef aldrei rætt þetta mál við hann,“ segir Einar. Aðspurður segist Einar ekki hafa haft áhyggjur af því að skyldleiki sinn við Bjarna Benediktsson yrði til þess að gera málið tortryggilegt. „Nei, það hvarflaði ekki að mér.“

Hann segir að auk sín hafi fleiri verið spurðir að því hvort þeir hefðu áhuga á að koma að þessum viðskiptum. „Eftir umhugsun þá ákvað ég að taka þátt í þessu. Ég veit að einhverjir sem komu að þessu á þessum tíma afþökkuðu,“ segir Einar, en bætir því við að hann geti ekki greint frá því hvaða aðilar það voru.
Það var Magnús Magnússon sem bauð Einari að koma að kaupunum, en Magnús hefur verið í forsvari fyrir Eignarhaldsfélagið Borgun.