Um 77.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í síðasta mánuði samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Ferðamenn í janúar hafa aldrei verið fleiri en í ár og hefur þeim fjölgað um 23,6 prósent frá því á sama tíma í fyrra.
Langflestir þeirra ferðamanna sem fóru frá landinu í síðasta mánuði, alls um 78 prósent, voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir, 35,5 prósent af heildarfjölda, en næst komu Bandaríkjamenn, 18,6 prósent.
Þar á eftir fylgdu Kínverjar, Þjóðverjar, Frakkar, Danir, Norðmenn, Japanir, Svíar og Kanadamenn. Bretar, Bandaríkjamenn og Kínverjar báru uppi aukninguna í janúar milli ára, eða um 81,5 prósent af heildaraukningu.
Sem fyrr segir, hafa aldrei verið fleiri ferðamenn á Íslandi fyrsta mánuð ársins en nú í ár. Til samanburðar má nefna að meira en fjórfalt fleiri ferðamenn sóttu landið heim í síðasta mánuði en í janúar árið 2010.
Fjórfalt fleiri ferðamenn en í janúar 2010
