Körfubolti

Ívar um Kára: Verður vonandi svimalaus í dag | Tognun í baki og hálsi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Óvíst er með framhaldið hjá Kára.
Óvíst er með framhaldið hjá Kára. vísir/getty
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í Dominos-deild karla, segir að meiðsli Kára Jónssonar komi betur í ljós í dag hvort Kári verði klár á nýjan leik með liðinu í rimmunni gegn Þór Þorlákshöfn í átta liða úrslitum deildarinnar.

Ragnar Nathanaelsson fór heldur harkalega í bakið á Kára með þeim afleiðingum að Kári skaust í gólfið og kom ekki meira við sögu í leiknum.

„Hann fékk vægan heilahristing og smá hnykk á bakið," sagði Ívar í samtali við Vísi skömmu fyrir hádegið og aðspurður hvort hann verði eitthvað frá svaraði Ívar:

„Það fer allt eftir því hvort hann verður með svima í dag eða ekki og við vonum að svo verði ekki."

Ívar vildi lítið tjá sig um atvikið strax eftir leikinn í gær, en hefur nú myndað sér skoðun á þessu atviki.

Skil ekki afhverju það var ekki tekið á þessu

„Ég er búinn að sjá þetta og þetta var mjög gróft. Ég skil ekki afhverju það var ekki tekið á þessu í leiknum, en ég er ekki að segja það að Ragnar hafi viljandi ætlað að meiða hann. Kári stendur kyrr og það er það versta í þessu."

Kári er algjör lykilmaður í Haukaliðinu og Haukarnir söknuðu hans gífurlega í síðari hálfleiknum í gær, en framhaldið ræðst í dag.

„Það ræðst í dag. Heilbrigðiskerfið er ekki það fljótvirkasta og skilvirkasta hér á Íslandi í dag þannig að hann þurfti að bíða lengi á spítalanum."

„Hann er bara sofandi núna og við leyfum honum að hvíla sig. Ef hann er svimalaus í dag þá getur hann eflaust tekið skotæfingu á morgun, en hann tekur ekki þátt í okkar æfingum fyrir leikinn," sagði Ívar.

Kári sagði í samtali við Vísi að hann væri að glíma við tognun í baki og háls, en auk þess fengið smávægilegan hristing og má því ekki reikna með að hann spili í Þorlákshöfn á mánudag þegar liðin mætast á nýjan leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×