Erlent

Ætla að senda alla sem koma til Grikklands aftur til Tyrklands

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir sitja fastir við norðurlandamæri Grikklands.
Þúsundir sitja fastir við norðurlandamæri Grikklands. Vísir/EPA
Leiðtogar ESB samþykktu í gær nýja stefnu varðandi flóttamannavandann. Hún felur meðal annars í sér að allir þeir sem ferðast frá Tyrklandi til Grikklands verði sendir aftur til Tyrklands. Í staðinn munu Tyrkir fá fjárhagslega aðstoð og munu geta ferðast innan Schengen samstarfsins án vegabréfa.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands mun fara yfir tilboð ESB í dag.

Fyrir hvern þann flóttamanna frá Sýrlandi, sem sendur yrði aftur til Tyrklands, yrði öðrum flóttamanni úr búðum í Tyrklandi veitt hæli innan ESB.

Samkvæmt frétt BBC segir Dalia Grybauskaite, forseti Litháen, að tillögurnar jaðri við það að brjóta gegn alþjóðalögum og að erfitt væri að framfylgja þeim. Sjálfur hefur Davutoglu sagt að Tyrkland verði ekki „opið fangelsi“ fyrir flóttamenn. Þá sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, að ekki væri hægt að tryggja jákvæða niðurstöðu í leit að lausn á vandanum.

Milljón farand- og flóttamenn hafa ferðast frá Tyrklandi til Grikklands frá janúar í fyrra. Þar af rúmlega 132 þúsund á þessu ári. Tugir þúsunda sitja nú fastir við landamæri Grikklands í norðri, þar sem landamærunum inn í Albaníu, Makedóníu og Búlgaríu hefur verið lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×