Körfubolti

Fyrstu bræðurnir sem mætast í lokaúrslitum síðan 1987

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon og Finnur Atli Magnússon.
Helgi Már Magnússon og Finnur Atli Magnússon. Vísir/Stefán
Augu margra verða á þeim Helga Má Magnússyni og Finni Atla Magnússyni í úrslitaeinvígi KR og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir unnu titilinn saman í fyrra en ætla að keppa um hann í ár.

Fyrsti leikurinn hjá Helga Má og félögum í KR á móti Finn Atla og félögum í Haukum verður í DHL-höllinni í Frostaskjóli í kvöld og hefst hann klukkan 19.15.  Körfuboltakvöldið hefst klukkan 18.40 og gerir einnig upp leikinn að honum loknum.

Það er ekki á hverjum degi sem bræður spila um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla og þetta er í raun aðeins að gerast í annað skiptið í sögu úrslitakeppninnar frá 1984.

29 ár eru liðin síðan að þeir Teitur Örlygsson og Sturla Örlygsson mættust í lokaúrslitunum en árið 1987 unnu Teitur og félagar í Njarðvík 2-0 sigur á Sturla og félögum í Val. Teitur og Sturla höfðu orðið saman Íslandsmeistarar með Njarðvíkurliðinu árið 1984.

Teitur skoraði 10,5 stig að meðaltali í leikjunum tveimur í lokaúrslitunum 1987 sem Njarðvík vann báða en félagið varð þá að tryggja sér fjórða Íslandsmeistaratitilinn í röð. Sturla skoraði 9,5 stig að meðaltali í leikjunum.

Helgi Már Magnússon á möguleika á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð en hann hefur ákveðið að þetta verði hans síðasta tímabil. Helgi Már varð Íslandsmeistari með KR 2009, 2014 og 2015.

Finnur Atli Magnússon ákvað að skipta yfir í Hauka fyrir þetta tímabil og hann hefur komið með reynslu og sigurhefð inn í Haukaliðið. Finnur Atli varð Íslandsmeistari með KR bæði 2011 og 2015.

Að minnsta kosti einn af Magnússon bræðrunum hefur verið með í öllum sex Íslandsmeistaraliðum nema einu (2007) á þessari öld en eldri bróðir þeirra Helga og Finns, Guðmundur Magnússon, varð meistari með KR árin 2000 og 2009.

Það er mun styttra síðan að systur mættust í lokaúrslitum en Gunnhildur Gunnarsdóttir spilaði með Haukum þegar liðið mætti systur hennar Berglindi Gunnarsdóttur og félögum hennar í Snæfelli í lokaúrslitunum fyrir tveimur árum. Berglind hafði betur en þær unnu síðan saman titilinn með Snæfellsliðinu í fyrra.


Tengdar fréttir

„Helgi getur étið það sem úti frýs“

Bræðurnir Helgi Már og Finnur Atli Magnússynir munu mætast í úrslitaeinvígi Domino's-deildar karla. Þeir verða sérstaklega nánir allt einvígið enda eru þeir báðir á hótel mömmu þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×