Körfubolti

Hjálmar með einkenni heilahristings: Stokkbólginn og marinn en gæti mætt í næsta leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjálmar Stefánsson fékk mikið högg í gær.
Hjálmar Stefánsson fékk mikið högg í gær. vísir
„Ég er ekki alveg viss hvort ég sé nefbrotinn, læknarnir vilja ekki skoða það meðan ég er svona bólginn,“ segir Hjálmar Stefánsson, leikmaður Hauka, sem fékk mikið höfuðhögg í leik Hauka og Tindastóls í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í gær.

Haukar unnu leikinn 89-81 en um var að ræða þriðja leik liðanna og leiða Haukar því einvígið 2-1.

„Ég held að ég verði alveg orðinn góður en staðan verður bara metin á næstu dögum. Ég er víst með einhver einkenni heilahristings,“ segir Hjálmar sem mun taka þátt á æfingu í dag. Haukar taka rólega æfingu í dag og verður staðan á Hjálmari þá metin betur. Liðin mætast á Sauðárkróki á þriðjudagskvöldið og geta Haukar komist í úrslit með sigri.

„Ég mun líklega fara með liðinu norður og það er ekki búið að útiloka það að ég taki þátt í leiknum. Ég man ekkert alltof vel eftir atvikinu en ég man eftir flautinu hjá dómaranum. Ég hélt fyrst að það væri verið að dæma ruðning á hann [Darrel Lewis] en ég fékk víst dæmda á mig villu. Ég fékk bara höggið og lokaði þá augunum og var strax farið með mig inn í klefa.“

Hjálmar segist vera mjög ánægður með liðsfélaga sína að hafa klárað þennan leik.

„Ég var í símanum uppi á spítala og var bara á refresh takkanum. Það var svo gott að sjá þá vinna þennan leik. Við ætlum núna að gera allt til þess að klára þetta einvígi í næsta leik. Þetta er samt sem áður gríðarlega erfiður útivöllur og sennilega sá erfiðasti á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×