Sport

Ítrekar að Conor verður ekki með á UFC 200 en stutt er í endurkomu hans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dana White og Conor McGregor hafa slíðrað sverðin til hálfs.
Dana White og Conor McGregor hafa slíðrað sverðin til hálfs. vísir/getty
Þrátt fyrir að hafa sagt annað sjálfur verður írski bardagakappinn Conor McGregor ekki með á UFC 200 í júlí þar sem hann átti að berjast öðru sinni við Nate Diaz.

Þetta staðfesti Dana White, forseti UFC, í gær og ítrekaði svo aftur í gærkvöldi. Ekkert verður af bardaganum gegn Diaz 9. júlí í Las Vegas.

Conor henti út áhugaverðu spili á Twitter-síðu sinni eldsnemma í gærmorgun þar sem hann sagði að hann myndi berjast á UFC 200 gegn Diaz og þakkaði Dana White og Lorenzo Fertitta, yfirmönnum UFC, fyrir að gera stuðningsmönnunum greiða og ganga frá málum.

Þetta útspil skilaði litlu því White sagði við TMZ í gær: „Þetta er ekki satt. Við höfum hvorki talað við Conor né umboðsmanninn hans frá blaðamannafundinum á föstudaginn. Ég veit ekki af hverju hann setti þetta inn á Twitter.“

TMZ greip White svo aftur fyrir utan veitingastað í Beverly Hills í gærkvöldi þar sem hann var að gera sig kláran að fara að horfa á UFC-stjörnuna Paige VanZant keppa í sjónvarpsþættinum Dancing with the stars.

Aðspurður aftur hvort Conor McGregor yrði ekki hluti af UFC 200 sagði White að svo yrði ekki en hann gæti mætt aftur strax á næsta bardagakvöld eftir það.

„Við erum nýbúin að halda blaðamannafund um þetta. Ég veit ekki hversu skýrmæltari ég geti verið. Conor berst á UFC 201, 202, 203 eða eitthvað. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær en við finnum út úr þessu,“ sagði Dana White.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×