Handbolti

Sjáðu geggjað sirkusmark Guðjóns Vals á móti Kiel

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, mátti þola tap með félagsliði sínu Barcelona, 29-24, gegn Kiel í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Evrópumeistararnir þurfa sex marka sigur á heimavelli sínum í Katalóníu í seinni leiknum til að komast í undanúrslitin eða Final 4 sem haldin verða í Köln að vanda.

Guðjón Valur skoraði tvö mörk í leiknum en það fyrra var sérstaklega glæsilegt. Hann skoraði þá algjörlega frábært sirkusmark eftir sendingu frá makedónsku markavélinni Kiril Lazarov.

Guðjóni fannst ekki nóg að svífa inn í teiginn eins og haförn og grípa sendingu Lazarovs heldur kryddaði hann tilþrifin enn frekar með því að vippa boltanum yfir danska markvörðinn Niklas Landin sem flestir telja þann besta í heimi.

Þetta mark og annað glæsilegt mark frá Dominik Klein má sjá í myndbandinu hér að ofan.


Tengdar fréttir

Kiel með öruggan fimm marka sigur á Barcelona

Kiel vann fimm marka sigur á Barcelona í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag en seinni leikur liðanna fer fram í Barcelona á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×