Gunnar bauð upp á frábæra frammistöðu í bardaganum og kláraði Rússann á uppgjafartaki í annarri lotu. Frá fyrstu sekúndu var Gunnar mjög beittur. Mætti rússneska rotaranum standandi. Var gríðarlega hraður og lét höggin dynja á Rússanum.
Mjög erfiður bardagi
Hann tók hann svo niður í strigann um miðja lotuna og héldu þá margir að ballið væri búið. Rússinn náði aftur á móti að standa á fætur þegar hálf mínúta var eftir af lotunni og framlengja bardagann.
Tumenov ætlaði að svara fyrir sig í annarri lotu en Gunnar var kominn á bragðið. Sjálfstraustið í botni. Gunnar kom Tumenov aftur niður í gólfið og að þessu sinni var engin undankomuleið. Er 1,45 mínútur voru eftir af lotunni gafst Rússinn upp er Gunnar var kominn með aðra höndina undir hálsinn á honum.
„Þetta var mjög erfiður bardagi. Það var mikil orka í þessum bardaga. Það er mismunandi eftir bardögum hversu mikið menn slaka á og svona. Það var mikil spenna allan bardagann á milli okkar,“ segir Gunnar og bætir við að bardaginn hafi gengið eins og hann sá hann fyrir sér.

„Planið var að mýkja hann aðeins. Vera hraður og hreyfanlegur. Lesa hann og taka hann svo niður. Ég ætlaði svo að klára hann í gólfinu. Ég sá það fyrir mér sem plan A án þess að ég sé mikill planari.“
Þó að Rússinn sé hættulegur rotari lá Gunnari ekkert á að taka hann niður í gólfið. Hann vildi fá tilfinningu fyrir honum fyrst. Gunnar náði svo yfirburðastöðu í gólfinu í fyrstu lotu en náði ekki að klára dæmið þá.
„Ég var smá fúll út í sjálfan mig að hafa misst jafnvægið og hann. Það var klaufalegt fannst mér. Hann gerði ekkert sérstakt til að losa sig. Ég dottaði í sekúndubrot. Það gerist ekki aftur,“ segir Gunnar ákveðinn en honum leið mjög vel í bardaganum.
Alltaf leiðinlegt að tapa
Þó að Gunnar hafi unnið mjög sannfærandi þá fékk hann smá skurð við annað augað í bardaganum.
„Ég held að ég hafi fengið þennan skurð er hann setti puttana á fullu í andlitið á mér. Ég fékk fingurinn inn í augað og sá frekar illa með auganu í smá tíma á eftir.“
Gunnar fékk víða hrós á internetinu eftir bardagann og sumir af helstu MMA-sérfræðingum heims sögðu að þetta hefði verið hans besta frammistaða í UFC.
Tumenov er hörkugæi
„Ég á eftir að horfa á hann aftur áður en ég get tjáð mig almennilega um það. Þetta var mjög gott. Þetta er hörkugæi sem ég mætti. Á bjarta framtíð fyrir sér og á flugi. Þetta var stórsigur. Það er engin spurning,“ segir Gunnar en hann hefur hug á að berjast aftur fljótlega en fyrst ætlar hann í frí og svo beint að æfa aftur.
„Það er yfirleitt þannig eftir bardaga að fargi er af manni létt. Það hefði verið leiðinlegt að tapa tvisvar í röð. Það er reyndar alltaf leiðinlegt að tapa. Það var frábært fyrir mig að þetta skildi enda svona.“