Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu þriggja sakborninga í Aurum-málinu um að fá að kalla til nýja matsmenn til að leggja mat á verðmæti Aurum. Krafan var lögð fram í kjölfar þess að Hæstiréttur féllst á kröfu Ólafs Þórs Haukssonar, héraðssaksóknara, um að leiða fyrir dóm vitni sem lagt höfðu mat á verðmæti félagsins í einkamáli.
Í Aurum-málinu eru þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í þeim. Ákæran snýst um sex milljarða króna lán sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd, í júlí 2008.
Þeir Lárus, Jón Ásgeir og Magnús Arnar fóru fram á að fá dómkvadda matsmenn að málinu. Fastlega má gera ráð fyrir því að úrskurði héraðsdóms verði skotið til Hæstaréttar.
Ákæra í Aurum-málinu var gefin út þann 12. desember 2012 og voru sakborningar sýknaðir af ákærunni í héraði í júní 2014. Tæpu ári síðar ógilti Hæstiréttur þann dóm þar sem hann féllst á þann málatilbúnað ákæruvaldsins að sérfróður meðdómari í málinu í héraði, Sverrir Ólafsson, hafi verið vanhæfur til að dæma í því vegna ættartengsla sinna við Ólaf Ólafsson sem var dæmdur í fangelsi fyrir aðild sína að Al Thani-málinu.
Í kjölfar ómerkingar Hæstaréttar var málið sent aftur heim í hérað. Þar fór sérstakur saksóknari, nú héraðssaksóknari, fram á það að dómsformaður í málinu, Guðjón St. Marteinsson, myndi víkja sæti vegna vanhæfis.
Hæstiréttur féllst á það og því var skipaður nýr dómsformaður, áðurnefnd Barbara Björnsdóttir, en með henni í dómnum sitja þau Símon Sigvaldason, héraðsdómari, og Hrefna Sigríður Briem, sérfróður meðdómari.
Aurum-málið: Hafnaði kröfu ákærðu um dómkvadda matsmenn

Tengdar fréttir

Allar líkur á að aðalmeðferð Aurum-málsins frestist fram á haust
Aðalmeðferðin átti að hefjast í þessari viku.

Gylfi Magnússon ber vitni í Aurum-málinu
Hæstiréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði hafnað því að Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, fengi að leiða fimm vitni fyrir dóm í Aurum-málinu.