Handbolti

Logi Geirs sýndi engin svipbrigði þegar Lijewski jafnaði | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í úrslitaleiknum og Logi Geirsson upp í stúku.
Aron Pálmarsson í úrslitaleiknum og Logi Geirsson upp í stúku. Vísir/EPA
Íslendingar eignuðust ekki Meistaradeildarmeistara í handbolta í dag eins og svo margoft á undanförnum árum en það munaði svo ótrúlega litlu hjá Aroni Pálmarssyni og félögum í Veszprém.

Veszprém tapaði úrslitleiknum í vítakeppni á móti pólska liðinu Vive Tauron Kielce eftir að hafa misst niður yfirburðarforystu í seinni hálfleiknum.

Veszprém var átta mörkum yfir, 24-16, þegar minna en 20 mínútur voru eftir en tapaði síðustu tuttugu mínútunum 13-5. Krzysztof Lijewski skoraði jöfnunarmarkið rétt fyrir leikslok og tryggði Pólverjunum framlengingu. Eftir hana var enn jafnt og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Logi Geirsson, fyrrum atvinnumaður og leikmaður íslenska landsliðsins, er mikill vinur Arons og hann var mættur til Köln til að fylgjast með leiknum eins og fjöldi annarra Íslendingar.

Annar handboltamaður, Kristinn Björgúlfsson, tók upp myndband af Loga á lokasekúndum leiksins eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan. Viðbrögð Loga eru afar sérstök en hann sýnir engin svipbrigði á meðan allt fer á annan endann allt í kringum hans.

Logi vildi að sjálfsögðu sjá sinn mann vinna Meistaradeildina eins og allt íslenskt handboltaáhugafólk en líklegt trúði hann því bara ekki hvernig ungverska liðinu tókst að klúðra þessu.

Aron Pálmarsson átti annars mjög góðan leik í liði Veszprém og var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar þrátt fyrir tapið í úrslitaleiknum.

Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk í leiknum sjálfum og nýtti svo vítið sitt í vítakeppninni. Slóveninn Gasper Marguc og Mirsad Terzic klikkuðu á sínum vítaköstum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×