Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur verið ráðin forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line á Íslandi.
Í tilkynningu frá Gray Line kemur fram að Þórdís Lóa sé með MBA gráðu frá Háskóla Reykjavíkur og búi að langri stjórnunarreynslu í ferðaþjónustu, alþjóðasamskiptum og opinberri þjónustu.
„Hún er formaður stjórnar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og var um árabil stjórnarformaður FinIce, finnsk-íslenska viðskiptaráðsins. Hún situr í stjórn Eldeyjar THL, sem er fjárfestingarfélag í ferðaþjónustu, svo og í stjórn fjölmiðilsins Hringbrautar. Hjá Hringbraut hefur hún verið stjórnandi þáttanna Sjónarhorns og Lóa og lífið.
Gray Line á Íslandi er öflugt ferðaþjónustufyrirtæki með yfir 260 manns í föstu starfi, flutti rúmlega 580 þúsund ferðamenn í eigin ferðum á síðasta ári og velti rúmlega 3,5 milljörðum króna. Fyrirtækið býður yfir 70 skipulagðar skoðunarferðir og eru 75 hópferðabílar í flota þess,“ segir í tilkynningunni.
