Fótbolti

Aron á skotskónum en Alfreð hafði betur í Íslendingaslagnum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron fagnar marki sínu í dag.
Aron fagnar marki sínu í dag. vísir/getty
Aron Jóhannsson kom Werder Bremen yfir í Íslendingaslagnum í þýsku úrvalsdeildinni í dag en Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg náðu að snúa leiknum sér í hag í seinni hálfleik og taka stigin þrjú.

Aron og Alfreð byrjuðu báðir í fremstu víglínu en Aron kom heimamönnum í Bremen yfir á lokasekúndum fyrri hálfeliks af vítapunktinum eftir ódýran vítaspyrnudóm Daniel Siebert, dómara leiksins.

Gestirnir frá Bæjaralandi voru ekki lengi að svara en þar var að verki miðvörðurinn Jeffrey Gouweleeuw eftir hornspyrnu á 52. mínútu leiksins.

Vinstri bakvörðurinn Konstantinos Stafylidis kom Augsburg yfir á 72. mínútu úr aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Alfreði utan teigs en stuttu áður fór Aron af velli.

Reyndist mark Stafylidis vera sigurmark leiksins og tóku gestirnir því stigin þrjú í dag. Var þetta fyrsti sigur tímabilsins hjá Augsburg en Werder Bremen er án sigurs eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×