Fótbolti

U19 ára landsliði kvenna skoraði tíu mörk

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þórður Þórðarson er þjálfari U19 ára landsliðs kvenna
Þórður Þórðarson er þjálfari U19 ára landsliðs kvenna vísir/anton
Íslenska U19 ára landslið kvenna niðurlægði 10-0 Kasakstan í öðrum leik sínum í undanriðli Evrópukeppninnar í Finnlandi í dag.

Anna Pétursdóttir kom Íslandi á bragðið með eina marki fyrri hálfleiks fjórum mínútum fyrir hálfleik.

Anna var aftur að verki á fimmtu mínútu seinni hálfleiks. Tveimur mínútum síðar kom Selma Sól Magnúsdóttir íslenska liðinu í 3-0.

Getumunurinn á liðunum kom glögglega í ljós í seinni hálfleik. Agla María Albertsdóttir skoraði fjórða markið á 63. mínútu, Ásdís Halldórsdóttir komst á blað á 66. mínútu áður en Agla María skoraði annað mark sitt á 73. mínútu.

Melkorka Katrín Pétursdóttir skoraði sjöunda mark Íslands tíu mínútum fyrir leikslok og fimm mínútum síðar fullkomnaði Agla María þrennu sína. Enn var tími fyrir Önnu Pétursdóttir að fullkomna þrennu sína og Öglu Maríu að skora sitt fjórða mark því þær negldu síðustu naglana í kistu Kasakstan í uppbótartíma.

Ísland lagði Færeyjar 5-0 í fyrsta leik sínum í undanriðlinum og leikur hreinan úrslitaleik við Finnland um sigur í riðlinum á þriðjudaginn. Finnland lagði Kasakstan 7-0 og leikur við Færeyjar síðar í dag.

Efsta liðið úr hverjum riðli kemst áfram í milliriðil auk þeirra 10 liða sem ná bestum árangri í öðru sæti úr riðlunum ellefu.

Átta liða úrslitakeppnin verður leikin í Norður-Írlandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×