Handbolti

Kristján tekinn við sænska landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristján á blaðamannafundi sænska handknattleikssambandsins í dag.
Kristján á blaðamannafundi sænska handknattleikssambandsins í dag. skjáskot/aftonbladet
Kristján Andrésson var í dag ráðinn þjálfari sænska landsliðsins í handbolta til næstu tveggja ára.

Hann tekur við liðinu af þeim Staffan Olsson og Ola Lindgren. Kristján er aðeins 35 ára gamall.

Kristján spilaði með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum árið 2004 en þurfti að leggja skóna á hilluna tveimur árum síðar vegna meiðsla. Hann náði 13 landsleikjum með íslenska landsliðinu.

Hann þjálfaði lið Guif Eskilstuna frá árinu 2007 fram á síðasta vor með afar eftirtektarverðum árangri. Fór tvisvar með liðið í úrslit í sænska boltanum. Sjálfur lék hann með félaginu þar til hann lagði skóna á hilluna.

Kristján sagði í samtali við íþróttadeild seinni partinn í gær að starfið væri afar spennandi. Þó væri ljóst að breytingar yrðu á hópnum enda lykilmenn að hætta. Hann er ekki enn búinn að ráða aðstoðarþjálfara. Mats Olsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, verður markvarðarþjálfari liðsins.

Íslendingar þjálfa nú landslið Svíþjóðar, Danmerkur, Þýskalands og Austurríkis í karlaboltanum og svo er Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins. Ótrúleg útrás hjá íslenskum þjálfurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×