Körfubolti

Slæmur kafli í upphafi fjórða leikhluta kostaði Íslendinga í Sviss

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Martin Hermannsson er lykilmaður í íslenska liðinu..
Martin Hermannsson er lykilmaður í íslenska liðinu.. vísir/ernir
Íslenska landsliðið í körfubolta tapaði öðrum leiknum í röð í undankeppni Eurobasket 2017 gegn Sviss ytra í dag en leiknum lauk með þriggja stiga sigri Svisslendinga, 83-80.

Íslenska liðið vann fyrri leik liðanna 88-72 á dögunum en allt annað en sigur fyrir Svisslendinga þýddi að þeir væru úr leik.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og leiddi 18-15 að fyrsta leikhluta loknum en Svisslendingar náðu að minnka muninn í eitt stig í öðrum leikhluta.

Íslenska liðið tók eins stiga forskot inn í hálfleikinn 41-40 en heimamenn voru sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og leiddu 56-54 fyrir lokaleikhlutann.

Slæmur kafli í upphafi fjórða leikhluta gerði það að verkum að heimamenn náðu tólf stiga forskoti í stöðunni 72-60 en það reyndist of stór munur fyrir strákana til að vinna upp.

Náðu strákarnir að minnka muninn niður í 3 stig með ótrúlegum lokaspretti en lengra komust þeir ekki og fögnuðu Svisslendingar því naumum sigri.

Martin Hermansson var atkvæðamestur í íslenska liðinu með nítján stig en Elvar Örn Friðriksson kom öflugur inn af bekknum með sextán stig.

Þá bætti Haukur Helgi Pálsson við átján stigum en Hlynur Bæringsson var með tvöfalda tvennu, tólf stig og ellefu fráköst í leiknum.

Framundan eru seinustu tveir leikir íslenska liðsins í undankeppninni á heimavelli gegn Kýpur á miðvikudaginn og Belgíu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×