Handbolti

Fimmtán ára valdatíð Onesta lokið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Onesta eftir sinn síðasta leik með franska liðið á ÓL í Ríó.
Onesta eftir sinn síðasta leik með franska liðið á ÓL í Ríó. vísir/getty
Franska goðsögnin Claude Onesta hætti formlega sem þjálfari franska handboltalandsliðsins í gær.

„Þetta er þróunin en engin bylting,“ sagði hinn sigursæli Onesta á blaðamannafundi í gær.

Þessi 59 ára þjálfari er hættur eftir heil 15 ár með franska landsliðið. Aðstoðarmaður hans síðustu ár, Didier Dinart, er tekinn við en hann var lengi í landsliðinu hjá Onesta.

Sjálfur mun Onesta verða framkvæmdastjóri landsliðsins og Dinart getur því leitað til hans er á þarf að halda. Aðstoðarþjálfari verður annar fyrrum landsliðsmaður, Guillaume Gille.

Onesta mun sjá um mikil samskipti við fjölmiðla og styrktaraðila.

„Það er best ef Dinart og Gille geta einbeitt sér bara að boltanum. Svo mun ég hætta á einhverjum tímapunkti og þá verða þeir orðnir klárir í að taka við öllum pakkanum,“ sagði Onesta.

Þessi ákvörðun kemur mörgum á óvart og ekki síst á þessum tímapunkti þar sem það eru 100 dagar í að HM hefjist í Frakklandi. Margir áttu von á því að Onesta myndi kveðja á því móti. Kveðja á heimavelli.

„Þetta er vissulega áhætta en það hefðu verið okkar mistök að taka enga áhættu. Okkur hefur fundist að þetta sé rétti tímapunkturinn til að gera þessar breytingar,“ sagði Onesta og bætir við að hann ætli að gefa nýju þjálfurunum frið í sinni vinnu.


Tengdar fréttir

Sigurvegari stígur frá borði

Claude Onesta er hættur sem þjálfari franska handboltalandsliðsins. Hann staðfesti þetta í samtali við L'Equipe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×