Samkvæmt niðurstöðunum fengju Píratar 22,8 prósent fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn fengi 22,7 prósent fylgi. VG fengi 15,1 prósent og bætir við sig frá síðustu viku þegar fylgið mældist 12,6 prósent. Framsóknarflokkurinn fengi 8,5 prósent, Viðreisn fengi 8,4 prósent, Björt framtíð fengi 8,2 prósent. Samfylkingin fær hins vegar minnsta fylgið eða 7,3 prósent. Munurinn milli Framsóknarflokksins, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar er innan skekkjumarka.
Sjö prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni ætla að kjósa eitthvað annað en fyrrgreinda sjö flokka.
Á Stöð 2 í gær var birt fylgi flokkanna samkvæmt niðurstöðum samanlagðra kannana sem gerðar hafa verið á tímabilinu 26. september til 10. október. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn með 28,2 prósent fylgi, Píratar með 20,6 prósent fylgi, VG með 13,9 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn með 11 prósent fylgi, Samfylkingin með 7,5 prósent fylgi, Björt framtíð með 5,6 prósent fylgi og Viðreisn með 7,3 prósent fylgi.
Könnun Fréttablaðsins var gerð þannig að hringt var í 1.269 manns dagana 10. og 11. október þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Svarhlutfallið var því 63,1 prósent. Alls tóku 67,2 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar, 13,2 prósent sögðust óákveðin í því hvað þau ætluðu að kjósa, tæp 6,5 prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu en tæpt 13,1 prósent neitaði að gefa upp afstöðu sína.
Mun fleiri tóku afstöðu til flokkanna í könnuninni sem gerð var í byrjun þessarar viku heldur en í könnuninni sem gerð var dagana 3. til 4. október, þegar 58,6 prósent tóku afstöðu. Þetta gæti bent til þess að svarendur séu farnir að huga meira að kosningunum en áður.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.