Handbolti

Snorri Steinn markahæstur í Frakklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn er með 6,1 mark að meðaltali í leik í vetur.
Snorri Steinn er með 6,1 mark að meðaltali í leik í vetur. vísir/ernir
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, er markahæstur í frönsku 1. deildinni í handbolta.

Snorri skoraði sex mörk þegar Nimes tapaði 31-34 fyrir Nantes í gær. Hann er því kominn með 34 mörk í fimm deildarleikjum í vetur, fleiri en nokkur annar í frönsku deildinni.

Snorri, sem er nýorðinn 35 ára, skoraði átta mörk í fyrstu tveimur leikjum Nimes í vetur, sigrum á Ivry og USM Saran. Hann gerði sjö mörk í tapi fyrir Toulouse og svo fimm þegar Nimes vann hans gömlu félaga í Sélestat.

Níu af þessum 34 mörkum Snorra hafa komið úr vítaköstum. Skotnýting hans er 58,6%.

Matthieu Drouhin, leikmaður Salan, er næstmarkahæstur í frönsku deildinni með 33 mörk og Daninn Morten Vium Troelsen hjá Ivry er í 3. sæti á markalistanum með 32 mörk.

Snorri var fimmti markahæsti leikmaður frönsku deildarinnar í fyrra með 136 mörk, þrátt fyrir að missa talsvert úr vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×