Fram vann nauman tveggja marka sigur á Selfoss á heimavelli í Olís-deild kvenna en með sigrinum heldur Fram forskotinu á toppi deildarinnar.
Eftir jafntefli gegn Stjörnunni í annari umferð var Fram búið að vinna fimm leiki í röð fyrir leik dagsins en Fram vann fjögurra marka sigur þegar þessi lið mættust í fyrstu umferð.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hélt Selfyssingum inn í leiknum í dag og var munurinn aðeins tvö mörk í hálfleik 12-10.
Leikurinn var æsispennandi allt til loka en Framkonum tókst að knýja fram sigurinn að lokum 25-23.
Ragnheiður Júlíusdóttir var atkvæðamest í liði Fram með níu mörk en Steinunn Björnsdóttir bætti við sex mörkum.
Í liði Selfyssinga var það Hrafnhildur sem fór fyrir liðinu með tólf mörk en Adina Ghidoarca kom næst með fimm mörk.
