Skoðun

Tré er ekki bara tré

Pétur Halldórsson skrifar
Margt hefur verið sagt um þær endurbætur sem nú eru gerðar á Sundlaug Akureyrar og kosta 300 milljónir. Hér skal ekki rætt um skynsemi fjárútláta, hvort frekar ætti að betrumbæta í Hlíðarfjalli, í skólunum, félagsþjónustunni eða lagfæra bágborið ástand gatna og gangstétta. Hér skal rætt um tré.

Fyrir sextíu árum voru gróðursett tré við Þingvallastræti. Þau skyldu fegra sundlaugarsvæðið og veita því skjól. Gróðursett var lerki, greni og fleiri tegundir. Vafalaust áttu þessi tré misjafna daga því þau voru sum nokkuð frjálslega vaxin, einkum lerkitrén. Kannski voru þau ekki af þeim uppruna að best hæfði Íslandi. Það skiptir þó ekki máli. Í þéttbýli er ekki mest um vert að tré séu bein. Þau eru jafnvel elskulegri sem hafa frjálslegar línur eins og lerkitrén stóru sem stóðu við Sundlaugina.

Nýlega var mér sagt að nú hefðu öll þessi tré verið felld. Yfir mig þyrmdi. Er þröngsýnin og fáfræðin allsráðandi? Trén sem stóðu við heitu pottana og rennibrautirnar skýldu sundlaugargestum fyrir norðanáttinni en þau gerðu miklu fleira. Eitt stórt barrtré hefur gríðarmikið flatarmál ef allt er lagt saman. Þess vegna getur tréð safnað á sig mjög miklu ryki. Trén hreinsa loftið og ekki veitir af á Akureyri þar sem allt of margir aka bílum með negldum hjólbörðum sem er óþarfi. Þegar rignir skolast rykið af trjánum og rennur út í sjó. Trén bæta fyrir syndir mannanna. Heiminn vantar fleiri tré.

Íslendingar hafa enn ekki lært þá list að hanna mannvirki kringum tré. Hönnuðir vilja byrja með autt blað. Burt með trén. Við þurfum að geta teiknað að vild. Sjálfur hefði ég valið minni rennibraut ef það hefði verið leiðin til að bjarga trjánum og njóta áfram umhverfisþjónustu þeirra. Nei, sundlaugarsvæðið skal verða steinsteypuauðn þar sem norðanáttin nístir bera kroppa og ryk svífur yfir vötnum.

Fjárhagslegur ábati af trjám

Í New York kunna menn að meta umhverfisþjónustu trjánna. Þar hefur borgin sett upp vefsjá svo allir megi skoða hvert einasta götutré í borginni. Ef smellt er á eitthvert tré kemur upp gluggi. Þar sést hversu mikið regnvatn tréð temprar á hverju ári. Líka hversu mikla orku það sparar, hversu mikla mengun það hreinsar úr andrúmsloftinu og hversu miklu minni koltvísýringur losnar út í andrúmsloftið í borginni vegna tilvistar þessa eina trés. Allir þessir þættir eru metnir til fjár. Samanlagður fjárhagslegur ábati samfélagsins af þessari þjónustu eins trés nemur gjarnan mörg hundruð dollurum á ári. Vefsjáin heitir New York City Tree Map. Og gúgglið nú!

Við Sundlaugina á Akureyri stóðu mörg stór tré sem þjónuðu bæjarbúum og gestum þeirra vel og dyggilega í rúma hálfa öld. Þjónustu þeirra mætti meta á margar milljónir króna. Í hugsunarleysi og heimsku voru þessi tré felld og erfitt að sjá að það sem í staðinn kemur sé dýrmætara. Á Akureyri virðist ekki vera trjáræktarstefna sem að gagni kemur. Á Akureyri virðist fólk ekki vilja sjá gömul tré. Stór, falleg og nytsöm tré eru felld um allan bæ á hverju ári. Íslendingar virðast haldnir eyðimerkureðli. Að minnsta kosti er hér til fólk – lítilla sanda og lítilla sæva – sem tekur rangar ákvarðanir afkomendum sínum til ógagns. Verndum trén!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×