Handbolti

Nimes tapaði niður níu marka forystu gegn meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn skoraði sjö mörk í kvöld.
Snorri Steinn skoraði sjö mörk í kvöld. vísir/afp
Snorri Steinn Guðjónsson og félagar í Nimes fóru illa að ráði sínu gegn stórliði Paris Saint-Germain í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 33-36, PSG í vil.

Nimes var sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12, og náði mest níu marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 21-12. En vörn Nimes gaf hressilega eftir í seinni hálfleik og þar sem PSG skoraði hvorki fleiri né færri en 24 mörk.

Nimes var yfir, 32-31, þegar fimm mínútur voru eftir en frönsku meistararnir skoruðu fimm af síðustu sex mörkum leiksins og tryggðu sér sigurinn.

Snorri Steinn var næstmarkahæstur í liði Nimes með sjö mörk. Hann skoraði þrjú mörk úr átta skotum utan af velli og nýtti öll fjögur vítaköstin sín. Þá gaf Snorri Steinn tvær stoðsendingar.

Nimes er í 8. sæti deildarinnar með átta stig. Liðið hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson lék ekki með Nimes í kvöld vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×